Erlent

Annað safn rænt í Frakk­landi um helgina

Samúel Karl Ólason skrifar
Franskir lögregluþjónar að störfum. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Franskir lögregluþjónar að störfum. Myndin tengist fréttinni ekki beint. EPA/GUILLAUME HORCAJUELO

Nokkrum klukkustundum eftir að bíræfnir þjófar rændu gífurlega dýrmætum kórónum og skartgripum Louvre-safninu á sunnudaginn létu aðrir þjófar greipar sópa á öðru safni í Frakklandi. Um tvö þúsund gull- og silfurmyntum var stolið af safni sem tileinkað er heimspekingnum Denis Diderot í Landres í Frakklandi.

Samkvæmt frétt BBC eru myntirnar metnar á um níutíu þúsund evrur. Það samsvarar um 12,8 milljónum króna.

Safnið var lokað á mánudeginum og komst ekki upp um glæpinn fyrr en á þriðjudaginn, þegar starfsmenn mættu aftur til vinnu. Þá komu starfsmennirnir að brotnum sýningarkössum og hringdu strax í lögregluna.

Í yfirlýsingu frá lögreglunni segir að svo virðist sem þjófarnir hafi vitað hvað þeir væru að gera og valið myntirnar sem þeir tóku af mikilli þekkingu.

Auk ránsins í Louvre, þá brutust glæpamenn einnig inn í náttúrufræðisafn Parísar í síðasta mánuði og stálu þar sex gullmolum sem metnir eru á um eina og hálfa milljón evra. Það samsvarar um 212,8 milljónum króna.

Kínverskur maður var handtekinn í Barcelona í síðasta vegna þessa ráns en hann er sagður hafa reynt að selja nýbrætt gull.

Þá var tveimur kínverskum postulínsdiskum og vasa stolið af safni í Limoges í síðasta mánuði. Þeir munir eru metnir á 6,55 milljónir evra. Það samsvarar um 930 milljónum króna. Munirnir hafa ekki fundist og enginn hefur verið handtekinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×