Skoðun

Ein­faldar lausnir á vaxtamálavanda bankanna

Guðmundur Ásgeirsson skrifar

Vesalings bankarnir vita nú ekki sitt rjúkandi ráð og hafa auk að minnsta kosti þriggja lífeyrissjóða stöðvað tímabundið veitingu verðtryggðra lána og sumir líka óverðtryggðra lána með skilmálum um breytilega vexti í kjölfar dóms Hæstaréttar Íslands um ólögmæti þeirra.

Sem betur fer eru þó til afar einfaldar og hagnýtar lausnir á þessum meinta vanda.

Fyrir verðtryggðu lánin:

●Stöðvið allar lánveitingar verðtryggðra lána til neytenda, líka með föstum vöxtum.

●Gerið tímabundnu stöðvunina varanlega! Það þarfnast engra frekari aðgerða.

●Bjóðið neytendum með eldri verðtryggð lán að breyta þeim í óverðtryggð lán og fylgið í þetta sinn lögum með því að setja engin skilyrði um greiðslumat við skuldbreytinguna.

Fyrir óverðtryggðu lánin:

●Fylgið lögum og leiðréttið vexti útistandandi óverðtryggðra lána neytenda í þá sem var upphaflega samið um enda eru skilmálarnir um breytingar á þeim ólöglegir.

●Endurgreiðið með dráttarvöxtum alla þegar oftekna vexti umfram samningsvexti!

●Bjóðið neytendum óverðtryggð lán með föstum vöxtum allan lánstímann og hafið þá engar áhyggjur af því að verða gripnir aftur glóðvolgir því það er fullkomlega löglegt.

●Ef þið viljið endilega bjóða neytendum óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum, farið þá framvegis eftir ykkar eigin greiðslumati og hækkið ekki vexti á neinu slíku láni umfram það sem þið höfðuð sjálfir reiknað út að rúmaðist innan greiðslugetu lántakandans því þá amast varla neinn yfir vaxtabreytingum innan þeirra marka.

Sérlausn vegna fyrstu kaupa:

●Greiðslujöfnun: Til að auðvelda fyrstu kaupendum að standast greiðslumat getur lánið verið afborgunarlaust þannig að eingöngu eru greiddir vextir af því fyrstu 3-5 árin. Að þeim tíma liðnum er greiðslumatið endurnýjað og greiðslubyrðin aðlöguð að því svo að afborganir af höfuðstól hefjist. Þetta er svo endurtekið með jafn löngu millibili á lánstímanum þar til greiðslubyrðin samsvarar því sem nægir til að greiða lánið að endingu niður að fullu.

●Fyrstu kaupendur: Neytendur sem hafa ekki átt eigin íbúð undangengin 5 ár líkt og á við um opinber úrræði vegna fyrstu kaupa. Óverulegur eignarhlutur sem hefur ekki verið keyptur heldur fenginn í arf eða af svipuðum ástæðum telst ekki vera eigin íbúð.

Lánveitendum er hjartanlega velkomið að leita ráða hjá Hagsmunasamtökum heimilanna um nánari útfærslur á þessum sem og öðrum lausnum í þágu neytenda á fjármálamarkaði.

Heimilin eiga ekki að vera fóður fyrir bankana!

Höfundur er formaður Hagsmunasamtaka heimilanna.




Skoðun

Skoðun

Einu sinni enn

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×