Innlent

Kláfur á Ísa­firði fari í opin­bera kynningu

Kristján Már Unnarsson skrifar
Staðsetning kláfsins sýnd frá Eyrinni.
Staðsetning kláfsins sýnd frá Eyrinni. Efla/Eyrarkláfur ehf.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum í síðustu viku að leggja til við bæjarstjórn að nauðsynlegar skipulagsbreytingar vegna kláfs upp á Eyrarfjall ofan bæjarins fari í opinbera kynningu. Tillaga að nýju skipulagi var unnin af verkfræðistofunni Eflu fyrir Eyrarkláf ehf.

Lega kláfsins teiknuð inn á loftmynd.Efla/Eyrarkláfur ehf.

„Tilgangur framkvæmdarinnar er að skapa einstaka upplifun fyrir ferðamenn sem heimsækja Ísland sem og heimabyggðina sjálfa. Framkvæmdin miðar að því að bjóða upp á aðstöðu til skemmtunar og útsýnis yfir Ísafjörð og nágrenni, ásamt því að þróa svæðið sem útivistar- og afþreyingarsvæði,“ segir í greinargerð Eflu fyrir Eyrarkláf.

Tillaga að breyttu skipulagi vegna Eyrarkláfs.Efla/Eyrarkláfur ehf.

Þar segir ennfremur um staðarvalið:

„Eyrarfjall liggur nálægt byggðinni og býður upp á einstakt útsýni yfir Ísafjörð og nágrenni. Fjallshlíðin er brött og hentar vel til að tryggja einstaka upplifun. Byrjunarstöðin er í göngufæri frá miðbæ bæjarins sem tryggir gott aðgengi og lágmarkar umferð.“

Fram kemur að aðrir útsýnisstaðir sem skoðaðir voru þyki minna ákjósanlegir vegna lakara útsýnis, minni nálægðar við miðbæinn og aukinnar hættu á snjóflóðum.

Á svæðinu er gert ráð fyrir lyftuhúsum fyrir kláfinn, millimastri og endastöð. Á toppi Eyrarfjalls er einnig gert ráð fyrir byggingu þjónustuhúss sem muni hýsa veitingastað. Í síðasta áfanga uppbyggingarinnar er gert ráð fyrir hóteli.

Kláfurinn mun hafa áhrif á aðflug og brottflug frá Ísafjarðarflugvelli og þarf því að hindranalýsa kláfinn samkvæmt alþjóðlegum kröfum í samráði við Isavia og Samgöngustofu.

Eyrarfjall er við norðanverðan Skutulsfjörð. Kláfurinn kæmi beint upp af Eyrinni.Efla/Eyrarkláfur

Hugmyndin hefur verið lengi í bígerð en fjallað var um kláfinn í fréttum Stöðvar 2 árið 2007, fyrir átján árum. Í fréttinni má sjá útsýnið af Eyrarfjalli:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×