Fótbolti

Brendan Rodgers sagði starfinu sínu lausu eftir á­sakanir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brendan Rodgers er hættur sem knattspyrnustjóri Celtic.
Brendan Rodgers er hættur sem knattspyrnustjóri Celtic. Getty/Craig Foy

Brendan Rodgers hætti sem knattspyrnustjóri skoska stórliðsins Celtic í gærkvöldi en hann gerði félagið að skoskum meisturum í vor.

Síðasti leikur Rodgers var á móti Hearts um helgina en sá leikur tapaðist 3-1. Celtic er í öðru sæti en átta stigum á eftir toppliði Hearts eftir tapið.

Martin O'Neill, fyrrum knattspyrnustjóri Celtic, tekur við liðinu tímabundið. Hann er 73 ára gamall og það eru tuttugu ár liðin síðan hann var stjóri liðsins.

Rodgers sagði starfinu lausu eftir ásakanir frá hluthafanum Dermot Desmond sem á meirihluta í félaginu. Desmond sakaði norður-írska knattspyrnustjórann um „sundrandi, villandi og eigingjarna hegðun“

Í sérstöku bréfi til stuðningsmanna Celtic véfengdi Desmond fullyrðingu Rodgers um að honum hefði verið formlega boðin framlenging á samningi sínum.

Hann neitaði því líka að knattspyrnustjórinn hefði verið þröngvaður til að kaupa leikmenn og gagnrýndi „löngun hans til hugsa um sjálfan sig á kostnað annarra“.

Celtic hefur unnið skoska titilinn undir stjórn Rodgers undanfarin tvö ár og tvo bikara að auki. Hann tók við öðru sinni árið 2023 en á árunum 2016 til 2019 vann Celtic sjö titla undir hans stjórn.

Þetta tímabil hefur samt verið mikil vonbrigði, bæði heima fyrir en einnig í Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×