Erlent

Svipt barnabótunum vegna flugmiðakaupa

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kona var svipt barnabótum þar sem hún kom ekki úr utanlandsferð sem hún fór ekki.
Kona var svipt barnabótum þar sem hún kom ekki úr utanlandsferð sem hún fór ekki. Getty

Bresk stjórnvöld sviptu konu barnabótum eftir að hún bókaði flug til Osló en fór ekki úr landi. Yfirvöld töldu að þar sem konan hafði ekki „komið aftur“ frá Noregi, væri hún þar með flutt úr landi.

Samkvæmt umfjöllun Guardian er Lisa Morris-Almond meðal þúsunda annarra sem hafa farið á mis við greiðslu barnabóta vegna misheppnaðra aðgerða stjórnvalda gegn bótasvikum.

Morris-Almond átti bókað flug til Noregs í apríl í fyrra, þar sem vinur hennar var að fara að gifta sig. Brúðkaupinu var hins vegar aflýst með nokkurra daga fyrirvara, þannig að Morris-Almond fór ekki neitt.

Fyrir þremur vikum tók hún svo allt í einu eftir því að hún hafði ekki fengið greiddar barnabætur eins og venjulega og þegar hún fór að grennslast fyrir um málið fékk hún þau svör að hún hefði flutt úr landi. Það er að segja, gögn sýndu að hún hefði bókað far til Noregs en aldrei skilað sér aftur heim.

„Ég sagði: „Um hvað ertu að tala?“ Og útskýrði að ég hefði ætlað að fara í brúðkaup en hefði ekki farið en hann sagði bara: „Gögnin sýna að þú komst ekki til baka.“ Hann var ekki einu sinni að hlusta á það sem ég var að segja.“

Alls hafa greiðslur bóta til 23.500 verið stöðvaðar en mál Morris-Almond sker sig úr að því leyti að hún fór aldrei á flugvöllinn. Það bendir til þess að yfirvöld hafi í aðgerðum sínum stuðst við farþegalista, í stað þess að skoða skattgreiðslur viðkomandi.

Frjálslyndi demókrataflokkurinn hefur krafist skýringa á því hvers vegna stjórnvöld hafa verið að nota landamæragögn við ákvarðanatöku sína, í stað þess að fara hina venjubundnu leið og miða við staðgreiðslu opinberra gjalda.

Yfirvöld hafa gengist við mistökunum og sagst munu hætta að „fella niður bætur fyrst og spyrja svo“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×