Enski boltinn

Hefur spilað 16 mínútur og fengið tvö rauð spjöld

Valur Páll Eiríksson skrifar
Nallo var niðurbrotinn er hann gekk af velli í gær.
Nallo var niðurbrotinn er hann gekk af velli í gær. Dan Istitene/Getty Images

Það hefur ekki blásið byrlega hjá hinum 18 ára gamla Amara Nallo í fyrstu leikjum hans fyrir aðallið Liverpool. Hann fékk annað tækifæri sitt með liðinu í gærkvöld og var vísað af velli – í annað sinn.

Nallo spilaði annan leik sinn fyrir Liverpool í gærkvöld þegar hann kom inn á sem varamaður í strembinni stöðu. Liðið var 2-0 undir gegn Crystal Palace á Anfield.

Arne Slot gerði tíu breytingar á liði Liverpool frá 3-2 tapi fyrir Brentford um helgina og aðallið félagsins fékk að stærstum hluta hvíld. Calvin Ramsey, Trey Nyoni, Kieran Morrison og Rio Ngumoha fengu tækifæri í byrjunarliðinu og fjórir unglingar komu inn af bekknum; Kaide Gordon, Wellity Lucky, Trent Kone-Doherty og áðurnefndur Amara Nallo.

Nallo kom inn af bekknum á 67. mínútu og tólf mínútum síðar var honum vísað af velli fyrir að tosa niður Justin Devenney sem var sloppinn í gegn. Réttilega fékk hann rautt spjald að launum og vísað í sturtu.

Nallo virtist niðurbrotinn og hefur eflaust vottað fyrir slæmum endurminningum.

Hann entist enn skemur á vellinum í eina leiknum sem hann hafði spilað með Liverpool-liðinu fyrir gærkvöldið. Hann fékk tækifæri gegn PSV Eindhoven í Meistaradeildinni í janúar síðastliðnum.

Nallo hafði verið á vellinum í um fjórar mínútur þegar hann fékk reisupassann í Hollandi í janúar.EYE4images/NurPhoto via Getty Images

Aðeins fjórum mínútum síðar var honum vísað af velli, einnig fyrir að brjóta af sér sem aftasti varnarmaður.

Nallo fór niðurbrotinn af velli í gær og fóru stuðningsmenn Liverpool einnig grautfúlir heim á leið eftir 3-0 tap fyrir Crystal Palace sem fer áfram í næstu umferð deildabikarsins.

Um er að ræða sjötta tap Liverpool í síðustu sjö leikjum og jafnframt þriðja tap liðsins fyrir Crystal Palace á þessari leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×