Enski boltinn

Barcelona skuldar mest en Tottenham er númer tvö

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lamine Yamal kostaði Barcelona ekki neitt enda uppalinn hjá félaginu. Liðið kom sér í mikil fjárhagsvandræði með því að kaupa ítrekað köttinn í sekknum á leikmannamarkaðnum.
Lamine Yamal kostaði Barcelona ekki neitt enda uppalinn hjá félaginu. Liðið kom sér í mikil fjárhagsvandræði með því að kaupa ítrekað köttinn í sekknum á leikmannamarkaðnum. Getty/Image Photo Agency

Það kemur kannski ekki mörgum á óvart að sjá spænska félagið Barcelona efst á lista yfir þau evrópsku knattspyrnufélög sem skulda mestan pening í dag en mun fleiri eru örugglega hissa á að sjá Tottenham fyrir ofan Manchester United miðað við áhyggjur og aðgerðir Sir Jim Ratcliffe.

FC Barcelona skuldar nú áætlaðar 1,92 milljarða evra, 279 milljarða íslenskra króna. Skuldin er komin til vegna blöndu af of mikilli eyðslu, misheppnuðum stórkaupum á leikmönnum og kostnaðarsömum endurbótum á Nývangi. Allt þetta hefur sett félagið í mikla fjárhagskreppu.

Það er síðan enska úrvalsdeildarfélagið Tottenham sem kemur í öðru sæti með 1,36 milljarða evra í skuld, sem er að mestu leyti tengt heimsklassa leikvangi félagsins og fjárfestingum í leikmönnum. Tottenham er samt með góð tök á sinni skuldastöðu.

Ólíkt öðrum eru yfir níutíu prósent af lánum Tottenham með föstum vöxtum og ná til ársins 2051, sem er varkár stefna sem jafnar út stöðugleika og vöxt. Staðan er því ekki eins slæm og hún kannski sýnist.

Önnur félög skulda líka mikið en eru samt í ólíkri stöðu. Everton skuldar 1,14 milljarða evra í bland við óvissu um eignarhald en Manchester United er aftur á móti með 847 milljónir evra í eldri skuldum og veltilánum. 

Sir Jim Ratcliffe, minnihlutaeigandi í United, hefur verið með niðurskurðarhnífinn á lofti til að taka á fjárhagsvandræðum félagsins við miklar óvinsældir hjá stuðningsmönnum.

Næst eftir er ítalska félagið Internazionale sem er í gangi með endurskipulagningu á 350 milljóna evra skuldabréfi.

Chelsea skuldar yfir 346 milljónir evra, og svo kemur ítalska félagið Juventus, sem lækkaði skuldir sínar í 339,32 milljónir evra eftir margra ára fjárhagslegt aðhald.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×