Enski boltinn

„Haaland er þetta góður“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Andoni Iraola og hans menn áttu engin svör gegn Erling Haaland.
Andoni Iraola og hans menn áttu engin svör gegn Erling Haaland. EPA/ADAM VAUGHAN

Andoni Iraola, þjálfari Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni, hrósaði norska framherjanum Erling Haaland í hástert eftir að hann skoraði tvennu í 3-1 sigri Manchester City í leik liðanna.

„Til að fá eitthvað úr leikjum sem þessu þarftu eitthvað sérstakt. Í fyrri hálfleik náðum við að pressa eins og við gerum alltaf. Þeir komust gerðu mjög vel til að komast á bakvið okkur í fyrstu tveimur mörkunum. Við verðum að lifa með því að þegar við spilum eins og við spilum þá getur manni verið refsað. Ég er almennt ánægður með frammistöðuna.“

„Haaland er þetta góður. Hann er að spila frábærlega og með þessi svæði þá er erfitt að verjast. Við vildum ekki breyta leikstíl okkar og hann refsaði okkur í tvígang. Tímasetningin var ekki til staðar hjá miðvörðum okkar.“

„Við byrjuðum nokkuð vel. Börðumst og náðum að jafna leikinn í 1-1 en svo áttu þeir fallegt augnablik. Í síðari hálfleik stýrðum við leiknum ef til vill meira, spiluðum vel og fengum tvö færi.“

„Nú eigum við annan erfiðan leik [gegn Aston Villa á sunnudaginn kemur]. Enska úrvalsdeildin er kröfuhörð og allt er mjög jafnt.“

Bournemouth er líkt og Liverpool með 18 stig, stigi á eftir Man City í 2. sætinu og stigi á undan Tottenham Hotspur, Chelsea, Sunderland og Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×