Skoðun

Evran getur verið handan við hornið

Kristján Reykjalín Vigfússon skrifar

Í umræðu hér á landi er algengt að ræða um upptöku evru í kjölfar aðildar að Evrópusambandinu (ESB) sem fjarlægan draum þar sem yfir illfæra vegi og óbrúaðar ár sé að fara og ekki sé á vísan að róa varðandi vaxtastig í viðkomandi ríki eftir upptöku. Ferlið að upptöku evru er vel þekkt, margprófað og tiltölulega einfalt enda fjöldi ríkja búin að fara í gegnum það frá árinu 1999. Litið er á ferlið sem ákveðið próf fyrir ný aðildarríki í að reka skynsama hagstjórn. Ferlið byggir á Maastricht-sáttmálunum (1999) en uppfylla þarf fjögur skilyrði sáttmálans áður en upptaka Evru getur átt sér stað:

  1. Verðbólga skuli ekki vera meira en 1,5% hærri en meðaltal þeirra þriggja ríkja er hafa lægsta verðbólgu innan ESB.
  2. Halli á fjárlögum skal ekki fara yfir 3% af landsframleiðslu (VLF) nema í undantekningartilfellum. Skuldir ríkissjóðs skulu ekki vera hærri en sem nemur 60% af landsframleiðslu.
  3. Aðildarríki skal hafa verið í ERM II-samstarfinu (e. European Exchange Rate Mechanism) í a.m.k tvö ár án gengisfellingar síns eða breytinga á markmiðsgengi við evru.
  4. Langtímanafnvextir skulu ekki vera meira en 2% hærri en hjá þeim þremur ríkjum ESB með lægstu vextina.

Það er skemmst frá því að segja að aðildarrríki ESB sem hafa lagt upp í þetta ferðlag í gegnum ERM II kerfið hafa uppskorið árangur erfiðs síns.[1] Í töflunni hér að neðan má sjá að flestum ríkjunum hefur tekist að uppfylla skilyrðin á 2 til 3 árum. Lengri tíma tók fyrir Eistland, Lettland og Litháen að uppfylla skilyrðin. Ástæðan var annars vegar að tiltölulega nýfengið sjálfstæði frá Sovétríkjunum gerði það að verkum að tíma tók að koma á vestrænu lýðræðisskipulagi og hreinsa út viðhorf og spillingu alræðistímans og hins vegar að alþjóðleg bankakrísa gerði verkefnið erfiðar en ella.

Tímalengd í ERM II og upptaka evru

Ísland hefur verið mátað inn í ERM II kerfið af fræðimönnum og sérfræðingum á sviði hagfræði og fjármála. Þar kemur fram að byggt á reynslu annarra ríkja af þátttöku í ERM II-kerfinu, bendi fátt til þess að Ísland ætti að eiga í sérstökum erfiðleikum með að uppfylla Maastricht-skilyrðin, þó augljóslega sé um krefjandi ferli að ræða. Sérstaklega er tiltekin óvanalega löng reynsla Íslands af fastgengisstefnu sem hefur komið til út af þeim vanda allra ríkisstjórna á lýðveldistímanum við að halda stöðugleika í litlu opnu hagkerfi með einn minnsta gjaldmiðil í heimi. Þess utan hefur Ísland átt í mjög nánu efnahagssamstarfi við ESB í gegnum EES-samninginn í meira en þrjá áratugi. Þessi tenging hefur augljóslega leitt til mikillar samleitni í efnahags- og regluverki og nægir þar að nefna innri markaðinn. Byggt á þessum þáttum er það mat flestra sem um þessi mál fjalla að ekki sé óvarlegt að gera ráð fyrir að upptaka evru tæki Ísland 2 til 3 ár.

Hvað vaxtastigið varðar þá er augljóst að rétturinn til þess að prenta næst stærsta gjaldmiðil heims mikils virði fyrir lítið opið hagkerfi. Seðlabankinn fengi gríðarlega öflugt tæki til þess að varðveita fjármálastöðugleika og þjóna sem lánveitandi til þrautavara. Verkefni sem hann hefur ekki haft burði til að sinna sem skildi fram til þessa. Í annan stað setur Seðlabanki Evrópu sömu stýrivexti um allt evrusvæðið með vaxtaákvörðunum sínum þannig að skammtímavextir hérlendis myndu því lækka strax til samræmis eftir upptöku evru.

Að lokum er rétt að minna á það að langtímavaxtamunur sögulega séð milli íslands og ESB hefur verið að öllu jöfnu á bilinu 4-6% en skammtímavaxtamunur hefur verið frá 4% og upp í 16%.

Meðaltal húsnæðisvaxta á evrusvæðinu er nú um 3.3% óverðtryggt.

Stýrivextir á Íslandi standa nú í 7,5% en í 2,0% á evrusvæðinu.

Höfundur er kennari og doktor í stefnumótun við Háskólann í Reykjavík og hefur í um 20 ár kennt stefnumótun, alþjóðaviðskipti og rekstur & sjálfbærni í sjávarútvegi.


[1] Undantekningin er Danmörk sem uppfyllti skilyrðin en ákvað þrátt fyrir það að vera áfram í ERM II og notast áfram við danska krónu.




Skoðun

Skoðun

3003

Elliði Vignisson skrifar

Sjá meira


×