Fótbolti

FH-stelpurnar sáu um mörkin í sann­færandi sigri Ís­lands

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Byrjunarlið Íslands í leiknum á móti Slóveníu í dag. 
Byrjunarlið Íslands í leiknum á móti Slóveníu í dag.  Knattspyrnusamband Íslands

Íslenska sautján ára landslið kvenna í fótbolta er komið áfram í næstu umferð í undankeppni Evrópumótsins eftir flottan sigur á heimastúlkum í Slóveníu í dag.

Íslenska liðið vann leikinn 3-0 en þetta var hreinn úrslitaleikur um sæti í A-deildinni í næstu umferð undankeppninnar.

Öll mörk íslenska liðsins komu í seinni hálfleiknum en Slóvenar misstu Lönu Lesjak af velli með rautt spjald á 31. mínútu.

Íslensku stelpurnar höfðu unnið 6-2 sigur á Færeyjum á laugardaginn en Slóvenía vann færeyska landsliðið 3-0.

FH-ingurinn Anna Heiða Óskarsdóttir kom Íslandi í 1-0 á 72. mínútu eftir undirbúning Hafrúnar Birnu Helgadóttur sem er einnig í FH. Anna Heiða skoraði markið með frábæru langskoti langt fyrir utan teig.

Hafrún Birna skoraði sjálf annað markið fjórum mínútum síðar með öðru frábæru langskoti og þriðji FH-ingurinn, Ingibjörg Magnúsdóttir, skoraði síðan þriðja markið á 89. mínútu.

Enn á ný sýndu íslensku stelpurnar góða skottækni sína. Ingibjörg fékk boltann frá Eriku Ýr Björnsdóttur og skoraði flottu skoti upp í bláhornið.

Ingibjörg skoraði í báðum leikjunum en á móti Færeyjum skoruðu einnig þær Anika Jóna Jónsdóttir (Víkingi R.) (2 mörk), Elísa Birta Káradóttir (HK) og Bríet Fjóla Bjarnadóttir (Þór/KA) auk þess sem eitt markið var sjálfsmark.

Dregið verður í seinni umferð undankeppninnar 11. desember næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×