Handbolti

Donni marka­hæstur í stór­sigri í Evrópudeildinni

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Landsliðsmaðurinn átti frábæran leik. 
Landsliðsmaðurinn átti frábæran leik.  Getty/Marco Steinbrenner

Kristján Örn Kristjánsson átti stórleik 45-27 í stórsigri Skanderborg á útivelli gegn Minaur Baia Mare.

Hinn 27 ára gamli Donni var illviðráðanlegur og skoraði 10 mörk úr 13 skotum, auk þess að gefa 4 stoðsendingar og stela boltanum einu sinni af sóknarmönnum rúmenska liðsins. Þetta var hans besti leikur í Evrópudeildinni á tímabilinu en hann hafði áður skorað 5 og 4 mörk í sigrum gegn Slovan og Granollers. 

Næstir á eftir honum í markaskorun Skanderborg voru 18 ára ungstirnið Alexander Jensen með 7 mörk úr 7 skotum og 38 ára reynsluboltinn Morten Balling Christensen með 6 mörk úr 6 skotum.

Þetta var þriðji sigur Skanderborg í þremur leikjum í Evópudeildinni. Liðið er með fullt hús stiga á toppi C-riðils og +27 markatölu. Minaur Baia Mare er á botninum.

Heima fyrir er Skanderborg í öðru sæti dönsku deildarinnar en Aalborg er á toppnum, með fullt hús stiga og stórkostlega markatölu eftir ellefu umferðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×