Viðskipti innlent

Sendafélagið kaupir 4G og 5G dreifi­kerfi Sýnar og Nova

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sendafélagið er í eigu Sýnar og Nova.
Sendafélagið er í eigu Sýnar og Nova.

Gengið var frá kaupum Sendafélagsins ehf. á 4G og 5G dreifikerfum Sýnar hf. og Nova hf. Kaupverðið nemur samtals 2,6 milljörðum króna og gert er ráð fyrir að formlegu framsali fjarskiptabúnaðarins ljúki í árslok.

Þá hefst starfsemi Sendafélagsins á nýjum rekstrargrundvelli í ársbyrjun 2026.

Frá þessu er greint í tilkynningu frá Sýn.

Sendafélagið ehf. er í eigu Sýnar og Nova og var stofnað árið 2015. Hlutverk þess er að reka dreifikerfi félaganna á landsvísu, í þeim tilgangi að ná fram hagræðingu í rekstri og auka fjárfestingargetu í nýjum tæknilausnum.

Greint var frá því í tilkynningu í ágúst síðastliðnum að aðilar hefðu undirritað samkomulag um framsal farnetsdreifikerfa fyrirtækjanna til Sendafélagsins.

Samkvæmt tilkynningu Sýnar nú greiðir Sendafélagið 963 milljónir króna fyrir dreifikerfi Sýnar en aðilar hafa undirritað lánasamning þar sem Sýn veitir Sendafélaginu lán í formi greiðslufrests á kaupverðinu.

„Kaupverð Sendafélagsins á eignum frá Nova og Sýn nemur samtals um 2,6 ma.kr. Að viðbættum þeim eignum sem verða afhentar félaginu á móti fyrirhugaðri hlutfjárhækkun, nema þá heildareignir félagsins um 4,4 ma.kr. Samanlögð upphæð lánssamninga sem Sendafélagið gerir við Sýn og Nova nemur samtals um 2,6 ma.kr., sem myndar heildarskuldir félagins þegar rekstur hefst á nýjum grunni. Samkvæmt drögum að rekstraráætlun Sendafélagsins á fyrsta heila starfsári félagsins er áætlað að EBITDA félagsins verði um 1,3 ma.kr,“ segir í tilkynningu Sýnar.

Samningarnir og samstarf félaganna eru sögð háð fyrirvörum, meðal annars samþykki stjórnar Sýnar og gerð og samþykki þjónustusamninga félaganna við Sendafélagið.

Vísir er í eigu Sýnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×