Neytendur

Engar Robin klementínur á landinu þessi jól

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Mynd af klementínum úr safni. Þessar virðast reyndar ekki frá framleiðandanum Robin.
Mynd af klementínum úr safni. Þessar virðast reyndar ekki frá framleiðandanum Robin. Vísir/Einar

Klementínurnar vinsælu frá framleiðandanum Robin verða ekki fáanlegar í verslunum landsins fyrir þessi jól. Ástæðan er uppskerubrestur í framleiðsluhéraðinu vegna flóða í Valencia á Spáni á síðasta ári.

DV greinir frá þessum tíðindum, en þar er haft eftir Jóhönnu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Banana ehf., sem hefur flutt klementínurnar inn í gegnum árin, að mandarínur verði fluttar inn frá öðrum ræktendum í Valencia héraðinu í staðinn.

„Kementínurnar hafa notið gríðarlegra vinsælda meðal Íslendinga síðustu fjóra áratugi, ekki síst yfir hátíðarnar, þar sem margir tengja ilm, bragð og jólastemningu við Robin klementínur.“

„Við getum þó glatt landsmenn með því að tilkynna að mandarínur frá öðrum ræktendum í Valencia héraðinu eru á leiðinni í verslanir Bónus og Hagkaup í lok nóvember í sambærilegum gæðum og Robin. Enginn þarf því að missa af klementínuilminum sem fylgir jólunum,“ er haft eftir Jóhönnu í frétt DV.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×