Sport

NFL-goðsögninni sleppt úr fangelsi en hann þarf að vera með ökklaband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antonio Brown hefur verið í ruglinu síðan að fótboltaferlinum lauk og jafnvel nokkur ár áður en hann tromtímdi ferlinum.
Antonio Brown hefur verið í ruglinu síðan að fótboltaferlinum lauk og jafnvel nokkur ár áður en hann tromtímdi ferlinum. Getty/Prince Williams

Einn besti útherjinn sem hefur spilað í NFL-deildinni er laus úr fangelsi en réttarhöld bíða hans vegna tilraunar til manndráps.

Antonio Brown er fyrrverandi stjörnuútherji í NFL-deildinni sem í raun tortímdi ferli sínum í deildinni. Hann yfirgaf fangelsið í Miami í gær en hann var látinn laus gegn 25 þúsund Bandaríkjadala tryggingu, þremur milljónum króna, eftir að hafa lýst sig saklausan af ákæru um annars stigs tilraun til manndráps.

Hinn 37 ára gamli Brown faðmaði lögmann sinn, Mark Eiglarsh, fyrir utan Turner Guilford Knight-fangelsið í Miami. Hann hélt á poka með eigum sínum þegar þeir gengu að nálægum matsölubíl þar sem Brown fékk sér drykk, og síðan fóru þeir á brott í bifreið lögmannsins.

Héraðsdómarinn Mindy Glazer fyrirskipaði að Brown skyldi bera GPS-ökklaband meðan hann bíður réttarhalda. Hann á yfir höfði sér allt að fimmtán ára fangelsisdóm.

Saksóknarar höfðu farið fram á gæsluvarðhald og fært rök fyrir því að Brown væri hálaunaður fyrrverandi atvinnuíþróttamaður með fjárráð til að flýja. Eiglarsh sagði dómaranum á miðvikudag að Brown, sem er ekki lengur með vegabréf, myndi snúa aftur á heimili sitt í Broward-sýslu í Flórída meðan málið er í gangi.

Brown er sakaður um að hafa hrifsað skammbyssu af öryggisverði eftir hnefaleikakeppni fræga fólksins í Miami þann 16. maí og hleypt af tveimur skotum að manni sem hann hafði lent í slagsmálum við fyrr um daginn. Zul-Qarnain Kwame Nantambu sagði rannsakendum að önnur kúlan hefði snert háls hans.

Lögmaður Browns sagði á miðvikudag að rangt væri farið með í eiðsvörnu yfirlýsingunni. Brown hefði í raun notað eigið skotvopn og skotunum hefði ekki verið beint að neinum.

Brown lék í tólf ár í NFL-deildinni og var stjörnuútherji sem lék síðast árið 2021 með Tampa Bay Buccaneers. Hann var stóran hluta ferils síns hjá Pittsburgh Steelers. Á ferlinum náði Brown 928 sendingagripum fyrir meira en 12.000 jarda og skoraði 88 snertimörk alls, þar með talin vallarmörk eftir spyrnur og eina sendingu.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×