Innlent

70 ára af­mæli Tón­listar­skóla Ár­nesinga fagnað

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Vinkonurnar Dagbjört Eva Hjaltadóttir (t.v.) og Bjarkey Sigurðardóttir, sem eru báðar nemendur við skólann.
Vinkonurnar Dagbjört Eva Hjaltadóttir (t.v.) og Bjarkey Sigurðardóttir, sem eru báðar nemendur við skólann. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Það var líf og fjör á Laugarvatni um helgina þegar um 200 nemendur Tónlistarskóla Árnesinga komu saman til að spila á hljóðfæri sín í tilefni af 70 ára afmæli skólans fyrir gesti á sérstökum afmælistónleikum í íþróttahúsinu á Laugarvatni í gær, 15. nóvember.

Á tónleikunum koma fram allar hljómsveitir, samspilshópar og kórar tónlistarskólans, auk leikskólabarna úr Uppsveitum Árnessýslu. Íþróttahúsið var fullt af áhorfendum og mikill og góður afmælisbragur yfir tónleikunum en skólinn var stofnaður 1955.

„Þetta er svona hefðbundin íslenskur tónlistarskóli, sem starfar eftir aðalnámskrá tónlistarskóla rekin af sveitarfélögum þannig að við bjóðum upp á all hefðbundin hljóðfæri, bæði klassísk og rytmísk og Suzuki nám líka,” segir Helga Sighvatsdóttir, skólastjóri Tónlistarskóla Árnesinga.

Helga Sighvatsdóttir, sem er skólastjóri Tónlistarskóla Árnesinga en höfuðstöðvar skólans eru á Selfossi.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Um 540 nemendur eru í skólanum alls staðar úr Árnessýslu.

„Það eru svona flestir að læra á píanó og alltaf mjög margir, sem fara á gítarinn en svo dreifst þetta bara mjög vel á hljóðfærin, sem er mjög gott,” bætir Helga við.

Kennarar skólans tóku virkan þátt í afmælistónleikunum með nemendum.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Nemendur eru mjög ánægðir með skólann sinn.

„Já, námið er mjög skemmtilegt. Við þurfum að æfa okkur á hverjum degi í svona klukkutíma,” segja vinkonurnar Dagbjört Eva Hjaltadóttir, 14 ára og Bjarkey Sigurðardóttir, 12 ára, sem báðar eru búsettar á Selfossi.

Tveir af fyrrverandi skólastjórum skólans mættu á tónleikana á Laugarvatni með konum sínum en það eru þeir Róbert Darling (t.v.) og Jón Ingi Sigurmundsson.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Og að sjálfsögðu var afmælissöngurinn sunginn.

Þeir voru ekki allir háir í loftinu hljóðfæraleikararnir á tónleikunum eins og strákurinn lengst til hægri, sem er hér með pabba sínum, sem sérlegum aðstoðarmanni.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Skólinn var stofnaður 1955.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Heimasíða skólans




Fleiri fréttir

Sjá meira


×