Formúla 1

Norris á pól og heimsmeistaratitillinn í aug­sýn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Rigningin gerði mörgum ökumönnum erfitt fyrir í Las Vegas.
Rigningin gerði mörgum ökumönnum erfitt fyrir í Las Vegas. Vísir/Getty

Lando Norris verður á ráspól þegar Formúlu 1 kappaksturinn í Las Vegas fer af stað í nótt. Liðsfeálgi hans hjá McLaren, Oscar Piastri, ræsir hins vegar fimmti.

Norris og Piastri hafa verið að berjast um heimsmeistaratitil ökumanna allt tímabilið og lengst af leit út fyrir að Piastri myndi hafa betur.

Undanfarnar vikur hefur Norris hins vegar snúið dæminu við og náði 24 stiga forskoti í heimsmeistarakeppninni í síðustu keppni.

Eftir blautar tímatökur í Las Vegas í nótt hefur Norris nú tækifæri til að auka forskot sitt enn frekar. Norris átti besta tíman í lokahluta tímatökunnar þegar hann kom í mark á 1:47,934, rúmum 0,3 sekúndum hraðari en næsti maður, heimsmeistarinn Max Verstappen á Red Bull.

Það verður svo Carlos Sainz á Williams sem ræsir þriðji og George Russell á Mercedes sem ræsir fjórði. Oscar Piastri þarf hins vegar að vinna sig upp úr fimmt sætinu til að halda vonum sínum um heimsmeistaratitilinn á lífi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×