Enski boltinn

Gueye biðst afsökunar: „Ekkert rétt­lætir svona hegðun“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Idrissa Gana Gueye og Michael Keane rifust heiftarlega sem endaði með því að sá fyrrnefndi fékk rauða spjaldið.
Idrissa Gana Gueye og Michael Keane rifust heiftarlega sem endaði með því að sá fyrrnefndi fékk rauða spjaldið. getty/Simon Stacpoole

Idrissa Gana Gueye, leikmaður Everton, hefur beðist afsökunar á rauða spjaldinu sem hann fékk í leiknum gegn Manchester United í gær.

Á 13. mínútu leiksins á Old Trafford var Gueye rekinn af velli fyrir að slá samherja sinn, Michael Keane.

Þrátt fyrir að vera manni færri í 77 mínútur vann Everton 0-1 sigur í leiknum. Þetta er í fyrsta sinn sem David Moyes vinnur leik á Old Trafford sem knattspyrnustjóri gestaliðsins.

Eftir leikinn í gær skrifaði Gueye nokkur orð á Instagram þar sem hann baðst afsökunar á upphlaupi sínu og rauða spjaldinu.

„Fyrst vil ég biðja samherja minn, Michael, afsökunar,“ skrifaði Gueye.

„Ég tek fulla ábyrgð á viðbrögðum mínum. Ég bið samherja mína, starfsfólk, stuðningsmenn og félagið afsökunar. Það sem gerðist endurspeglar ekki hver ég er eða hvað ég stend fyrir. Mönnum getur hlaupið kapp í kinn en ekkert réttlætir svona hegðun. Ég sé til þess að eitthvað svona endurtaki sig ekki.“

Færsla Gueye á Instagram.

Með sigrinum í gær komst Everton upp í 11. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Liðið hefur unnið síðustu tvo leiki sína án þess að fá á sig mark.

Næsti leikur Everton er gegn Newcastle United á laugardaginn.


Tengdar fréttir

United afþakkaði glóru­lausa gjöf Gueye

Þrátt fyrir að hafa misst Idrissa Gana Gueye af velli með rautt spjald, fyrir að slá liðsfélaga sinn, náðu tíu baráttuglaðir Everton-menn að landa frábærum 1-0 sigri gegn Manchester United á Old Trafford í kvöld, þegar tólftu umferð ensku úrvalsdeildarinnar lauk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×