Formúla 1

Svona verða Norris, Verstappen eða Piastri heims­meistarar í dag

Aron Guðmundsson skrifar
Lando Norris (fyrr miðju) er með örlögin í sínum eigin höndum í baráttunni við Oscar Piastri (til vinstri) og Max Verstappen (til hægri) um heimsmeistaratitil ökuþóra í Formúlu 1
Lando Norris (fyrr miðju) er með örlögin í sínum eigin höndum í baráttunni við Oscar Piastri (til vinstri) og Max Verstappen (til hægri) um heimsmeistaratitil ökuþóra í Formúlu 1 Vísir/Getty

Úrslitin ráðast í Formúlu 1 mótaröðinni í Abu Dhabi seinna í dag í beinni útsendingu á Sýn Sport Viaplay. Þrír ökuþórar eiga möguleika á heimsmeistaratitlinum.

Það er Lando Norris, ökuþór McLaren sem leiðir stigakeppni ökuþóra með tólf stiga forskot á fjórfalda heimsmeistarann Max Verstappen hjá Red Bull Racing. Sextán stigum frá Norris er svo liðsfélagi hans hjá McLaen, Oscar Piastri sem er einnig á höttunum eftir sínum fyrsta heimsmeistaratitli.

Þessir þrír ökuþórar munu berjast um titilinn í Abu Dhabi í lokakeppni tímabilsins í dag og er Norris með örlögin í höndum sér. Það getur allt unnið með þér, eða á móti þér þegar kemur að Formúlu 1 og mögulegar útkomur í baráttunni um heimsmeistaratitilinn eru margar.

Tímataka fór fram í gær þar sem Max Verstappen náði fljótasta tímanum. Norris hefur keppni annar og Piastri þriðji, sem dregur hreint ekki úr spennunni fyrir keppni dagsins.

Réttast væri að byrja á því að rifja upp stigakerfi mótaraðarinnar þegar kemur að aðalkeppnum hennar.

Stigagjöf í Formúlu 1

1.sæti færir þér 25 stig

2.sæti færir þér 18 stig

3.sæti færir þér 15 stig

4.sæti færir þér 12 stig

5.sæti færir þér 10 stig

6.sæti færir þér 8 stig

7.sæti færir þér 6 stig

8.sæti færir þér 4 stig

9.sæti færir þér 2 stig

10.sæti færir þér 1 stig

Þá skulum við rýna í möguleika hvers ökuþórs fyrir sig sem eiga möguleika á titlinum fyrir lokakeppni tímabilsins.

Lando Norris (efstur í stigakeppni með 12 stiga forskot)

Það er frekar klippt og skorið fyrir Norris hvað hann þarf að gera í keppni sunnudagsins. Fari svo að hann endi á verðlaunapalli, sama hvort það verði í fyrsta, öðru eða þriðja sæti, verður hann heimsmeistari í fyrsta sinn á ferlinum og þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af því hvar Verstappen og Piastri enda.

Endi Norris í fjórða sæti, utan verðlaunapalls líkt og gerðist um síðustu keppnishelgi í Katar, þarf hann að treysta á að Max Verstappen sigri ekki kappaksturinn í Abu Dhabi.

Falli Norris af einhverjum sökum úr leik í komandi kappakstri eða endi utan stigasætis mun hann þurfa að treysta á að Verstappen endi ekki á Verðlaunapalli og að Piastri endi ekki ofar en í þriðja sæti.

Svona verður Lando Norris heimsmeistari:

Vísir/Grafík

Max Verstappen (2.sæti í stigakeppni 12 stigum á eftir Norris)

Til þess að Verstappen eigi möguleika á því að vinna sinn fimmta heimsmeistaratitil á ferlinum verður hann að enda á verðlaunapalli í Abu Dhabi. Vinni hann kappaksturinn verður Norris að enda í fjórða sæti eða neðar til þess að Hollendingurinn standi upp sem heimsmeistari og þá skiptir ekki máli hvar Piastri endar. Endi Verstappen í öðru sæti þarf hann að vona að Norris endi í áttunda sæti eða neðar og Piastri þriðja sæti eða neðar. Fari svo að Verstappen ljúki kappakstrinum í þriðja sæti verður hann að treysta á að Lando Norris endi í níunda sæti eða neðar og að Piastri vinni ekki kappaksturinn.

Svona verður Max Verstappen heimsmeistari:

Vísir/Grafík

Oscar Piastri (3.sæti í stigakeppni 16 stigum á eftir Norris)

Piastri verður að enda í einu af efstu tveimur sætum kappaksturinn í Abu Dhabi til þess að eiga möguleika á því að vinna sinn fyrsta heimsmeistaratitil. Fari svo að hann vinni kappaksturinn verður Piastri að vona að Norris endi í sjötta sæti eða neðar og þá skiptir ekki máli hvar Verstappen lýkur keppni. Endi Piastri í öðru sæti þarf hann að treysta á að Norris endi í tíunda sæti eða utan stigasætis og að Verstappen endi ekki á verðlaunapalli.

Svona verður Oscar Piastri heimsmeistari:

Síðasta keppni Formúlu 1 tímabilsins í Abu Dhabi verður sýnd í beinni útsendingu á Sýn Sport Viaplay og hefst upphitun fyrir hana klukkan hálf eitt, keppnin sjálf hefst klukkan eitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×