Skoðun

Reynsla úr heimi endur­hæfingar nýtist víðar

Svana Helen Björnsdóttir skrifar

Heilbrigðiskerfið okkar stendur frammi fyrir vaxandi áskorunum vegna sjúklinga með flókin og langvinn heilsufarsvandamál. Til að aðstoða fólk með slíkar áskoranir dugir ekki að meðhöndla aðeins einangraðan hluta líkamans: Reynsla okkar hjá Reykjalundi sýnir að farsælast er að beita þverfaglegri nálgun til að meðhöndla sjúklinga þar sem líkami, sál, lílfstíll og félagslegt umhverfi eru samofin.

Þverfagleg teymi: Lykillinn að árangri

Þverfagleg heilbrigðisþjónusta nýtir styrk og þekkingu fjölmargra fagaðila, allt frá læknum, hjúkrunarfræðingum, sjúkraþjálfurum og sálfræðingum til iðjuþjálfa, félagsráðgjafa og talmeinafræðinga, þar sem hver og einn leggur sitt af mörkum til að styrkja heildarmyndina.

Þegar sérfræðingar vinna saman verður meðferðin samræmd, markviss og stöðug og það dregur úr líkum á að sjúklingur lendi milli kerfa eða fái misvísandi skilaboð.

Þegar fleiri sjónarhorn á heilsuvanda sjúklings eru samofin verður leiðin áfram skýrari og uppbyggilegri. Sjúklingur fær liðveislu og verkfæri til að treysta eigin heilsu og getu, byggt á eigin styrkleikum.

Reynsla Reykjalundar sem fyrirmynd

Reykjalundur hefur byggt upp veigamikla stöðu í íslensku heilbrigðiskerfi með því að tileinka sér þessa nálgun og veita sjúklingum heildræna, þverfaglega endurhæfingu sem byggir á sterkum vísindalegum grunni og langri reynslu.

Við bjóðum upp á sveigjanleg úrræði og einstaklingsmiðað mat sem gerir okkur kleift að móta meðferðarleiðir fyrir fjölbreyttan hóp sjúklinga, með öflugum, sérhæfðum teymum fyrir m.a. hjarta-, lungna- og taugasjúkdóma, stoðkerfi, geðheilsu, offitu og efnaskiptasjúkdóma auk legudeilda fyrir þá sem þurfa áframhaldandi hjúkrun og endurhæfingu eftir dvöl á sjúkrahúsi.

Reykjalundur skipar mikilvægan og einstakan sess í heilbrigðiskerfinu. Við leggjum allt í sölurnar til að útskrifa fólkið okkar við sem besta heilsu og líðan til áframhaldandi þátttöku í samfélaginu.

Framtíðarsýn: Víðari notkun heildrænnar nálgunar

Með því að viðhalda og styrkja sérstöðu Reykjalundar styðjum við einstaklinga til að snúa aftur til lífsins með sem bestu heilsu og sinnum um leið mikilvægu þekkingarhlutverki um heildræna meðferð sem nýtist öllu heilbrigðiskerfinu og samfélaginu.

Reynslan úr endurhæfingarheiminum, þar sem þverfagleg nálgun hefur sannað gildi sitt, á fullt erindi inn á fleiri svið heilbrigðiskerfisins, og að mínu mati er brýnt að aðferðafræði þar sem fagaðilar vinna saman í kringum flókin heilsufarsvandamál sjúklingsins verði markvisst efld og innleidd víðar til að bæta árangur og skilvirkni.

Höfundur er starfandi forstjóri og stjórnarformaður Reykjalundar.




Skoðun

Sjá meira


×