Veður

Austan stormur og gular við­varanir á morgun

Lovísa Arnardóttir skrifar
Á Norðvesturlandi tekur viðvörun gildi klukkan 9 og gildir til 16.
Á Norðvesturlandi tekur viðvörun gildi klukkan 9 og gildir til 16. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan hefur gefið út gular viðvaranir fyrir nærri allt landið á morgun. Enn eru í gildi á miðhálendi og Suðausturlandi en í fyrramálið taka gildi nýjar viðvaranir alls staðar nema á höfuðborgarsvæðinu, Norðaustur- og Austurlandi.

Á Suðurlandi er spáð austan stormi og munu vindhviður staðbundið geta orðið hvassari en 35 metrar á sekúndu. Þar verður hvassast syðst á svæðinu og varasamt ferðaveður. Viðvörun á Suðurlandi tekur gildi klukkan sex í fyrramálið og gildir til hádegis. Við Faxaflóa er sama spá en þar tekur viðvörun gildi klukkan 10 í fyrramálið og gildir til klukkan 14. Þar segir að hviður verði mestar undir Hafnarfjalli og á Kjalarnesi.

Við Breiðafjörð tekur viðvörun gildi klukkan níu í fyrramálið og gildir til 16. Það sama gildir um Strandir og Norðurland vestra. Á Vestfjörðum tekur viðvörun gildi á sama tíma en gildir til 17.

Á Suðausturlandi er viðvörun í gildi til klukkan 14 í dag og á morgun klukkan sex tekur svo önnur gildi þar sem spáð er austan stormi. Sú viðvörun gildir til hádegis á morgun. Í dag og á morgun er spáð norðaustan 18 til 25 metrum á sekúndu, með hviðum upp í 35 til 40 metra á sekúndu. Þar verður líklega hvassast í Öræfum og varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.

Það sama gildir um miðhálendið. Þar er viðvörun í gildi þar til klukkan 15 í dag og svo klukkan níu í fyrramálið tekur önnur viðvörun gildi sem verður í gildi til 14 á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×