Neytendur

Aug­lýstu til­boð of títt og fá milljón í sekt

Atli Ísleifsson skrifar
Neytendastofa setti meðal annars út á að ítrekað hafi verið auglýstur lokadagur tilboðs en hann svo verið framlengdur.
Neytendastofa setti meðal annars út á að ítrekað hafi verið auglýstur lokadagur tilboðs en hann svo verið framlengdur.

Neytendastofa sektað verslunina ILVA í Kauptúni í Garðabæ um milljón krónur fyrir að birt villandi auglýsingar um afslætti og afsláttarkjör.

Úttekt Neytendastofu leiddi í ljós að ILVA hafi verið með of tíðari afsláttardaga en eðlilegt gæti talist og að þegar afslættir væru eins umfangsmiklir og algengir líkt og tilfellið var, þá væri ekki um raunverulega verðlækkun að ræða. Verðlækkun felist í að seljandi bjóði vöru á lægra verði en hann selji sams konar vöru venjulega á. Sömuleiðis var sett út á að ítrekað væri auglýstur lokadagur tilboðs en hann svo verið framlengdur.

Neytendastofa benti líka á að þegar sölusíða félagsins hafi verið skoðuð hafi komið í ljós að ekki væru í boði auglýst afsláttarkjör, meðal annars af fjölda sófa sem hafi verið til sölu hjá félaginu.

Flutningar hluti skýringa

Í svörum ILVA var meðal annars vísað til flutninga verslunarinnar af Korputorgi og í Kauptún og að ekki hafi verið hægt að afgreiða stóran hluta af vöruvalinu til viðskiptavina og að það útskýri hin tíðu tilboð.

Þetta kemur fram á vef stofnunarinnar. Þar segir að á því tímabili sem úttekt stofnunarinnar hafi tekið til – frá 1. ágúst 2024 til 6. janúar 2025 – hafi félagið sent að lágmarki 46 markpósta þar sem auglýstur hafi verið 20 til 25 prósenta afsláttur af öllum vörum að frátöldum sérpöntunum og vörum á föstu lágu verði.

„Í desember 2024 auglýsti verslunin að lágmarki 12 sinnum 20-25% afslátt af öllum vörum, þ.e. 12 daga voru sendir markpóstar með umræddum auglýsingum og/eða auglýsingar birtar í Morgunblaðinu og var þar frátalið auglýsingar sem birtar voru á vefmiðlum.

Þá auglýsti ILVA afsláttarkjör sem einvörðungu áttu að gilda í ákveðinn tíma en hafi svo annað hvort framlengt afsláttarkjörin í tiltekinn viðbótartíma eða auglýst strax aftur önnur afsláttarkjör sem tóku til sömu vara (iðulega auglýst 20-25% afsláttur af öllum vörum að sérpöntunum og vörum á föstu lágu verði frátöldum).

Að lokum auglýsti ILVA sófadaga en á vefsíðu félagsins kom fram „20-40% afsláttur af öllum sófum“. Þegar sölusíða félagsins var skoðuð kom hins vegar í ljós að ekki voru í boði afsláttarkjör af fjölda sófa sem til sölu voru hjá félaginu.“

Framlengdu tilboð

Í svörum félagsins kom fram að á úttektartímabili Neytendastofu hafi félagið staðið í flutningum á vöruhúsi sínu og hafi vöruflutningar á milli vöruhúsa verið umfangsmeiri en áætlað var sem hafi leitt til þess að fyrirtækið hafi ekki getað afgreitt stóran hluta af vöruvali sínu til viðskiptavina í ágúst og fram á haust og það útskýri hin tíðu tilboð. 

„Félagið telji að um raunverulega verðlækkun hafi verið að ræða og því sé fyllilega heimilt að framlengja tilboðsdaga til hagsbóta fyrir neytendur.

Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að þegar afsláttardagar eru eins umfangsmiklir og algengir líkt og í fyrirliggjandi máli, sé ekki um raunverulega verðlækkun að ræða enda felist í verðlækkun að seljandi bjóði vöru á lægra verði en hann selji sams konar vöru venjulega á. Neytendastofa komst einnig að þeirri niðurstöðu að með því að auglýsa ítrekað lokadag tilboðs en framlengja svo tilboð eða auglýsa nýja tilboðsdaga eða afsláttarkjör hafi félagið brotið gegn lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu ásamt reglugerð um viðskiptahætti sem teljast undir öllum kringumstæðum óréttmætir. Að lokum komst Neytendastofa að þeirri niðurstöðu að með því að auglýsa afslátt af öllum sófum þegar fjöldi sófa voru ekki á afslætti hafi félagið brotið gegn lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu ásamt reglum um útsölur og aðra sölu þar sem selt er á lækkuðu verði.

Bannaði stofnunin ILVA að viðhafa umrædda viðskiptahætti. Taldi stofnunin einnig tilefni til að beita stjórnvaldssekt í málinu og nam sektarfjárhæðin 1.000.000 kr.,“ segir á vef Neytendastofu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×