Fótbolti

Sólin komin upp á ný hjá Selmu Sól eftir krefjandi ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Selma Sól Magnúsdóttir fagnar marki sínu fyrir Ísland á móti bandaríska landsliðinu.
Selma Sól Magnúsdóttir fagnar marki sínu fyrir Ísland á móti bandaríska landsliðinu. Getty/Brad Smith

Íslenska landsliðskonan Selma Sól Magnúsdóttir hefur skrifað undir nýjan samning hjá norska félaginu Rosenborg. Miðjumaðurinn hefur spilað lítið á þessu ári en nú lítur allt bjartara út hjá þessum kraftmikla og baráttuglaða leikmanni.

Selma kom til Rosenborg fyrir tímabilið 2022 og hefur verið mikilvægur hluti af miðju liðsins síðan þá. Hún hefur átt flott tímabil með félaginu en varð fyrir meiðslum árið 2025 sem héldu henni frá keppni hluta úr árinu. Nú er hún á leiðinni til baka og hlakkar til nýs árs með Rosenborg.

„Það fylgir því góð tilfinning að skrifa undir nýjan samning við Rosenborg akkúrat núna. Ég hef verið að glíma við meiðsli undanfarið og er á leiðinni aftur inn á völlinn. Mér finnst rétt að gera það hér hjá Rosenborg,“ sagði Selma Sól Magnúsdóttir í viðtali á miðlum norska félagsins.

„Ég samdi aftur við Rosenborg af því að mér finnst ég geta gefið félaginu meira út á vellinum en ég hef gert upp á síðkastið. Ég hef ekki verið mikið inni á vellinum undanfarið en ég hlakka til að spila fótbolta á ný,“ sagði Selma Sól.

„Mér líður mjög vel hér og hér hef ég eignast marga góða vini. Mér finnst þetta það rétta í stöðunni. Markmið mitt persónulega er að komast aftur inn á völlinn. Það er stutt í það sem er mjög ánægjulegt. Það er mitt persónulega markmið og svo höfum við sem lið ný og stór markmið og ég hlakka til að vera hluti af því,“ sagði Selma.

Mads Pettersen, íþróttastjóri Rosenborg, fagnar því að halda Selmu Sól.

„Selma hefur átt krefjandi ár 2025. Við höfum mikla trú á því að sigurhugarfar hennar og kröfur um gæði í daglegu starfi muni hjálpa liðinu að vinna leiki á komandi tímabili. Við hlökkum til að fá sendingarfót hennar, skotgetu og vinnusemi aftur inn á völlinn árið 2026,“ sagði Pettersen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×