Innlent

Skilur að starfs­fólk hafi ekki viljað af­greiða mann­eskju með haka­kross

Lovísa Arnardóttir skrifar
Staðurinn 2Guys á Hlemmi
Staðurinn 2Guys á Hlemmi Vísir/Vilhelm

Hjalti Vignisson, eigandi veitingastaðarins 2Guys við Hlemm, segist alltaf standa með þeirra ákvörðun starfsfólks síns að neita einstaklingi um þjónustu með hakakross á andlitinu. 

Starfsmenn veitingastaðarins neituðu að afgreiða manneskju síðasta laugardag sem er með hakakross í andltinu. Annar sem var í för með þessum einstaklingi brást illa við og hrinti niður um 50 glösum og vatnskönnu. Fyrst var fjallað um málið á RÚV í kvöld.

„Ég er með fjórtán manns af ólíku þjóðerni í vinnu,“ segir hann og að fyrir sum þeirra hafi hakakrossinn mjög mikla þýðingu. Hann skilji því vel viðbrögð þeirra og standi með þeim.

Kærir ekki

Hjalti var í sambandi við lögreglu vegna málsins en hefur tekið ákvörðun um að kæra atvikið ekki. Engin slys hafi verið á fólki og tjónið á veitingastaðnum ekki mikið.

„Ég get kært þetta en það hefur lítið upp á sig. Ég nennti ekki að standa í því fyrir svona smotterí. Þetta voru einhver glös og maður kaupir bara ný glös,“ segir Hjalti.

Staðurinn er við Hlemm og segir Hjalti þetta því miður part af því að vera á þessu svæði. Um árabil hafi fólk sem minna má sín í samfélaginu haldið til þar. Hann segir stöðuna hafa breyst og batnað síðustu ár og þetta breyti því ekki að hann vilji vera þarna með staðinn sinn.

„Það hefur dregið úr þessu eftir að svæðið var tekið í gegn. Síðustu þrjú ár hefur verið rosalega breyting á svæðinu til hins betra,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×