Fótbolti

David Silva: Ég var sá fyrsti sem Beckham vildi fá til Inter Miami

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Silva á tíma sínum sem leikmaður Manchester City þar sem hann vann fjóra Englandsmeistaratitla.
David Silva á tíma sínum sem leikmaður Manchester City þar sem hann vann fjóra Englandsmeistaratitla. EPA-EFE/Shaun Botterill

Spænska goðsögnin David Silva hefur upplýst að hann hafi hafnað því að ganga til liðs við Inter Miami eftir að hafa yfirgefið Manchester City árið 2020.

Eftir tíu tímabil á Etihad kaus Silva að snúa aftur í La Liga og spila með Real Sociedad, þar sem hann lagði skóna á hilluna árið 2023 eftir að hafa slitið krossband.

„Ég var sá fyrsti sem fékk tilboð frá Inter Miami,“ sagði Silva, 39 ára, í hlaðvarpinu El Camino de Mario.

„Ég hitti [forseta Inter Miami, David] Beckham í Manchester, en ég sagði honum að ég vildi enn keppa í Evrópu. Svo fékk ég mörg önnur tilboð: Japan og Katar, en þá setti ég einkalífið í forgang og fannst ég mjög tilbúinn að keppa,“ sagði Silva.

Silva, sem varð heimsmeistari með Spáni árið 2010 og Evrópumeistari 2008 og 2012, lítur stoltur til baka á tíma sinn á Englandi.

Aðspurður hvort hann hefði viljað spila fyrir Barcelona sagði fyrrverandi stjarna Valencia: „Hver hefði ekki viljað það en besta ákvörðunin sem ég tók var að fara til City. Ég átti tíu stórkostleg ár þar. Fólkið kom ótrúlega vel fram við mig, við unnum allt, liðið var að batna og svo er það England, sem hefur eitthvað öðruvísi,“ sagði Silva.

„Ég veit ekki hvað það er, en það er eitthvað öðruvísi við fótboltann þar. Hann er eins og trúarbrögð fyrir þeim. Það tók mig nokkra mánuði að aðlagast því á milli heimsmeistaramótsins og frísins hafði ég ekki tíma til að æfa. Ég horfði á þá spila og hugsaði: ‚Annaðhvort kem ég mér í form eða þetta er búið,“ sagði Silva

„Ég talaði við stjórann, sagði honum að ég væri ekki tilbúinn og hann kom mér smátt og smátt inn í liðið,“ sagði Silva.

Silva skoraði 77 mörk í 436 leikjum fyrir City og vann fjóra Englandsmeistaratitla, tvo FA-bikara og fimm deildabikara á tíma sínum á Etihad.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×