Sport

Bunting slapp með skrekkinn og mætir Ind­verjanum sem opnaði flóð­gáttirnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nitin Kumar vann sögulegan sigur á HM í pílukasti í gær.
Nitin Kumar vann sögulegan sigur á HM í pílukasti í gær. getty/Andrew Redington

Alþýðuhetjan Stephen Bunting lenti í kröppum dansi í viðureign sinni við Sebastian Bialecki í fyrstu umferð heimsmeistaramótsins í pílukasti. Hann mætir Indverjanum Nitin Kumar í næstu umferð en sá skrifaði söguna með sigri sínum í gær.

Bunting, sem er í 4. sæti heimslistans, hafði betur gegn Bialecki, 3-2. Hann vann fyrstu tvö settin en sá pólski sett þrjú og fjögur og úrslitin réðust því í oddasetti. Þar tryggði Bunting sér sigurinn og sæti í annarri umferð.

„Ég var heppinn að sleppa með þetta. Ég þarf að safna kröftum og æfa. Þessi taugastrekkjandi leikur er að baki og ég verð betri í næstu umferð,“ sagði Bunting sem var með 96 í meðaltal í leiknum.

Andstæðingur Buntings í 64-manna úrslitunum er hinn fertugi Kumar sem sigraði Richard Veenstra í spennutrylli í gær, 3-2.

Þetta var fyrsti sigur Kumars á HM og jafnframt fyrsti sigur indversks leikmanns í sögu mótsins.

„Ég veit ekki hvað ég á að segja núna. Þetta er yfirþyrmandi og ég er glaður. Ef þig dreymir eitthvað er allt mögulegt,“ sagði Kumar sem hafði fjórum sinnum tapað í 1. umferð HM áður en hann vann loks sigur í gær.

Kumar vonast til að sigurinn hafi jákvæð áhrif á indverska pílukastara.

„Ég hef opnað flóðgáttir fyrir milljarða. Afsakið að ef eftir tíu ár ganga átta leikmenn inn á sviðið á HM með Bollywood-tónlist,“ sagði Kumar sem var afar öruggur í útskotunum gegn Veenstra.

Sá indverski var með 75 prósent útskotsprósentu og það skipti því ekki máli þótt hann væri með lægra meðaltal í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×