Lífið

Féllu ör­magna til jarðar eftir langa þriðju vakt

Atli Ísleifsson skrifar
Frá tónleikunum í Norðurljósasal Hörpu á þriðjudaginn í síðustu viku.
Frá tónleikunum í Norðurljósasal Hörpu á þriðjudaginn í síðustu viku. Aðsend

Kvennakórinn Katla stóð fyrir óhefðbundnum jólatónleikum í Norðurljósasal Hörpu í síðustu viku þar sem þær fóru sínar eigin leiðir að vanda.

Kórinn samanstendur af sjötíu konum um fertugt sem kórstýrurnar og söngkonurnar Lilja Dögg Gunnarsdóttir og Hildigunnur Einarsdóttir hafa leitt síðustu þrettán árin.

Í tilkynningu frá kórnum segir að tónleikarnir hafi verið á jaðri þess að vera gjörningur frá upphafi til enda.

„Í lögunum dönsuðu konur með slæðum, féllu örmagna til jarðar eftir langa þriðju vakt, hrokkinhærðir englar birtust sem af himni ofan og yfir konur var sáldrað gervisnjó og konfettí.

Þakið ætlaði að rifna af Hörpunni þegar kórinn tók samstilltan Tik tok -dans úr smiðju Sibylle Köll við söng lagsins „Það á að gefa börnum brauð“.

Í lok tónleika mynduðu nokkrar kórkonur mennskt jólatré sem var skreytt frá stjörnu til stofns undir laginu „Klukknanna köll“.“

Haft er eftir Lilju Dögg Gunnarsdóttur kórstýru að kórinn vilji alltaf koma áhorfendum á óvart og að hann leggi sig fram við að brjóta upp hið hefðbundna tónleikaform. „Við viljum líka leysa kórkonur úr viðjum vanans og ýta þeim langt út fyrir þægindarammann. Þá verða til töfrastundir á sviðinu sem gripu áhorfendur í Hörpunni,“ segir Lilja Dögg

Þá segir Hildigunnur Einarsdóttir kórstýra að fólk hafi verið yfir sig hrifið af gjörningunum í bland við hljómfagran söng Katlanna. „Nokkur hafa nefnt að réttast væri að breyta nafninu í Fjöllistahópurinn Kötlurnar en við ætlum okkur þó enn stærri hluti á vortónleikunum okkar. Spennið beltin!“ er haft eftir Hildigunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.