Innlent

Laxar struku úr landeldi í Eyjum

Agnar Már Másson skrifar
Fiskeldisker Laxeyjar í Eyjum.
Fiskeldisker Laxeyjar í Eyjum. Laxey

Að minnsta kosti tveir laxar sluppu fyrir slysni úr landeldisstöð í Vestmannaeyjum og út í sjó. Ekki er útilokað að fleiri fiskar hafi sloppið.

Matvælastofnun skrifar á vef sínum að tilkynning hafi borist á í gær, 16. desember, frá Laxey í Vestmannaeyjum vegna stroks úr eldisstöð þeirra í Viðlagafjöru.

Samkvæmt upplýsingum frá rekstrarleyfishafa hafi óhapp orðið við flutning milli tanka í eldisstöðinni og í kjölfarið hafi fundist dauðir fiskar í fjöruborðinu þar sem fráveitan frá eldinu hafi legið. 

Fyrir liggi upplýsingar frá rekstrarleyfishafa um að tveir laxar hafi sloppið lifandi út í sjó. Rekstrarleyfishafi hafi strax virkjað viðbragðsáætlun vegna stroks, lagði út net og hóf veiðar.

Í umræddu eldiskeri hafi verið 142.242 fiskar og meðalþyngd þeirra 2,2 kíló.

Matvælastofnun rannsakar málið. Stofnunin telur að ekki sé hægt að útiloka að fleiri laxar hafi strokið. Stofnunin hefur kallað eftir frekari gögnum frá Laxey sem gætu varpað skýrari ljósi á atvikið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×