Enski boltinn

Man City sagt ætla að keppa við Liverpool og Man. United um Semenyo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antoine Semenyo fagnar marki sínu á móti Manchester United á Old Trafford í vikunni.
Antoine Semenyo fagnar marki sínu á móti Manchester United á Old Trafford í vikunni. Getty/Robin Jones

Heitasti bitinn á markvarðnum í janúar verður væntanlega kantmaðurinn Antoine Semenyo hjá Bournemouth en heimildir að utan herma að mörg af stærstu félögum Englands hafi áhuga á honum.

Semenyo er með riftunarákvæði í samningi sínum hjá Bournemouth sem myndi leyfa þessum 25 ára leikmanni að fara fyrir 65 milljónir punda, ellefu milljarða króna, á fyrstu tveimur vikum janúargluggans.

Manchester City er meðvitað um þetta tækifæri en stjórnarmenn félagsins telja að það gæti verið röð af félögum sem bíða eftir að virkja ákvæðið, þar á meðal Liverpool, Manchester United, Tottenham og Arsenal. Þetta segja heimildarmenn ESPN.

Liverpool hefur verið sterklega orðað við Semenyo í ljósi óvissu um framtíð Mohamed Salah.

Tottenham og United sýndu bæði áhuga í sumar og Arsenal hefur einnig skoðað þennan landsliðsmann Gana áður.

Riftunarákvæði Semenyo gildir aðeins fyrstu tvær vikur janúargluggans til að verja Bournemouth gegn því að samningur sé gerður seint og félagið hafi þá enga möguleika á að finna staðgengil fyrir einn af lykilleikmönnum sínum.

Ef hann verður áfram á Vitality-leikvanginum í janúar mun ákvæðið gilda aftur í sumar fyrir lægri upphæð.

Semenyo er að eiga sitt besta tímabil hjá Bournemouth og hefur skorað sjö mörk í fimmtán leikjum.

Hann skoraði ellefu mörk í 37 leikjum árið áður og átta mörk í 33 leikjum á tímabilinu 2023-24 – hans fyrsta heila tímabil hjá félaginu eftir að hann kom frá Bristol City í janúar 2023.

Semenyo, sem fer ekki á Afríkumótið þar sem Gana komst ekki áfram, skoraði sitt fyrsta mark síðan í október í 4-4 jafnteflinu gegn Manchester United á Old Trafford.

Hann var verðlaunaður með nýjum samningi í júlí sem bindur hann við Bournemouth til 2030, þótt búist sé við að hann fari í janúar eða næsta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×