Gagnrýni

Úr öskunni í eldinn

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Avatar: Fire and Ash heldur áfram með sögu Jake Sully og fjölskyldu þar sem frá var horfið í The Way of Water. Enn á ný er ofurstinn Quaritch á eftir þeim en nú bætist líka nornin Varang í hópinn.
Avatar: Fire and Ash heldur áfram með sögu Jake Sully og fjölskyldu þar sem frá var horfið í The Way of Water. Enn á ný er ofurstinn Quaritch á eftir þeim en nú bætist líka nornin Varang í hópinn.

James Cameron býður áhorfendum í þriðja sinn til Pandóru að fylgjast með Na'vi-fólkinu berjast gegn ofsóknum mannanna. Sjónarspilið, hasarinn og tæknibrellurnar eru fyrsta flokks þó formúlan sé farin að þynnast. Aðdáendur seríunnar til þessa verða ekki sviknir en vantrúaðir verða heldur ekki sannfærðir úr þessu. 

Um er að ræða jólamynd ársins: Avatar: Fire and Ash, þriðju myndina í Avatar-flokknum. Sem fyrr situr James Cameron í leikstjórnarstólnum og skrifar líka handrit myndarinnar ásamt hjónunum Rick Jaffa og Amöndu Silver (og þó nokkrum öðrum).

Leikhópur myndarinnar er stór en í aðalhlutverkum eru Sam Worthington, Zoe Saldaña, Stephen Lang, Sigourney Weaver, Oona Chaplin, Britain Dalton og Jack Champion. Þá eru ótaldir fjölmargir öflugir aukaleikarar á borð við Kate Winslet, Jemaine Clement og David Thewlis.

Þriðja myndin hefst í kjölfar atburða myndar tvö, Avatar: The Way of Water (2022). Hjónin Jake Sully (Worthington) og Neytiri (Saldaña) og börn þeirra eru enn í sárum þegar tilveru þeirra er ógnað enn á ný. Ekki nóg með að ofurstinn Miles Quaritch (Lang) elti fjölskylduna á röndum heldur stendur þeim líka hætta af Mangkwan-ættbálknum og seiðnorninni Varang (Chaplin) sem vill dreifa eldi sínum um plánetuna.

Litið um öxl: Sjónarspil, tæknibrelluþróun og bláar verur

Fyrir utan að vera einn besti hasarleikstjóri kvikmyndasögunnar hafa fáir haft jafnmikil áhrif á tækniframþróun í geiranum og James Cameron. Þar má nefna fótórealísku tölvugrafíkina í The Abyss (1989), vélmennanotkun í bland við tæknibrellur í Terminator-myndunum tveimur og svo Avatar (2009) sem markaði tímamót í hreyfiföngun (e. performance capture) og þrívíddarkvikmyndun.

Avatar er ástríðuverkefni James Cameron.

Cameron tók fyrst að þróa Avatar í handritsformi fyrir meira en þrjátíu árum og ætlaði að koma henni út fyrir aldamót. Tæknin var hins vegar einfaldlega ekki nægilega öflug að hans mati. Þegar myndin kom loks út 2009 sló hún rækilega í gegn og varð tekjuhæsta kvikmynd allra tíma með tæplega þrjá milljarða dala í tekjur.

Avatar er geimfantasía sem gerist á miðri 22. öld. Mannkynið hefur numið land á fjarlægu plánetunni Pandóru til að grafa eftir dýrmæta efninu Unobtainium en um leið raskað ró bláu veranna Na'vi. Bandaríska hermanninum Jake Sully (Sam Worthington), sem skaddaðist á mænu í herþjónustu, býðst að taka þátt í nýju óhefðbundnu verkefni á vegum Dr. Grace Augustine (Sigourney Weaver) á Pandóru. Með hjálp nýjustu tækni bregður hann sér í líki Na'vi-veranna og kynnist prinsessunni Neytiri (Zoe Saldana). Sully opnar augun gagnvart eyðileggingunni, gengur til liðs við heimamenn og berst gegn sínu eigin kyni.

Avatar gekk svo vel að Cameron lýsti því nánast strax yfir að tvær framhaldsmyndir myndu bætast við og koma út 2014 og 2015. Aftur rak hann sig á að tæknin fylgdi ekki sýn hans, þróun á hreyfiföngun neðansjávar seinkaði öllu ferlinu um tæpan áratug. Myndir tvö og þrjú voru síðan teknar upp saman, tökur hófust 2017 og þeim lauk 2020, en önnur myndin, Avatar: The Way of Water, kom síðan ekki út fyrr en 2022.

Yngsta Sully-barnið, Tuk, fær hvað minnstan skjátíma af öllum.

Fyrsta myndin gerðist í skógum og háloftum Pandóru en í annarri myndinni beindi Cameron sjónum sínum að sínu stærsta hugðarefni: hafinu. 

Maður gæti trúað að þrettán ára bið milli mynda færi langt með að drepa áhuga áhorfenda á efninu en raunin var allt önnur. Aftur braust út Avatar-æði og Way of Water rakaði inn um 2,3 milljörðum dala.

Framhaldið gerist sextán árum eftir þá fyrstu. Sully og Neytiri hafa komið sér upp stórri fjölskyldu. Þegar sá forni fjandi Quaritch snýr aftur, orðinn sjálfur að Na'vi, neyðist fjölskyldan til að flýja frumskóginn og setjast að hjá nýjum ættbálki sem lifir við sjóinn og hefur beislað dýr hans. Þar finna þau frið en mennirnir eru aldrei langt undan.

Fyrst kom loftið, síðan vatnið og nú bætist eldur í blönduna.

Eldurinn er heitur og fullur af lífi.

Eldurinn græðir sárin

Áður en ég fjalla um Avatar: Fire and Ash verð ég að taka fram að ég dýrka James Cameron sem leikstjóra. Bíó er miðill sjónarspilsins og Cameron elskar sjónarspil. Fáir standast honum snúning í hasarmyndagerð og ef það er eitt sem hann kann, þá er það að gera risavaxnar ofurvandaðar Hollywood-myndir.

Cameron víkur heldur aldrei frá sýn sinni sem er bæði kostur og galli. Hann er þrjóskur og vill gera hlutina á sinn máta, sama hvað, sem hefur sýnt sig hvað best í Avatar-seríunni. 

Upp úr öskunni rís Fönixinn.

Stærsta gagnrýnin sem Cameron hefur fengið á sínum ferli snýr að handritum hans, þá sérstaklega persónusköpun og samtölum persóna. Á sama tíma og sjónræna hliðin er framúrskarandi eru persónurnar í myndum Cameron oftar en ekki ansi grunnar og samtöl þeirra gjarnan klisjukennd.

Fyrsta myndin var uppfull af slíkum klisjum en Cameron duldi það með sjónarspili, áður óséðum þrívíddarbrellum og frábærum hasar. Önnur myndin kynnti áhorfendur enn betur fyrir Pandóru með fallegustu neðansjávarsenum sem sést hafa á stóra skjánum og jafnvel enn betri hasar. Á sama tíma lenti Cameron í smá vandræðum því Way of Water innihélt aðeins of margar persónur til að hægt væri að sinna þeim öllum.

Fire and Ash gerist beint eftir atburði annarrar myndarinnar og mætti lýsa sem eins konar B-hlið hennar. Sagan er í meginþáttum sú sama nema með hasarsenur á stærri skala dýpri fjölskyldudýnamík. Þá hefur aðeins fækkað í fjölskyldunni sem gefur Cameron rýmra tækifæri til að þróa fjölskyldumeðlimina.

Krakkarnir lenda aftur í vandræðum.

Jake Sully bælir tilfinningar sínar meðan Neytiri getur hvorki sætt sig við sonarmissinn né að hinn mennski Spider (Champion) dvelji með fjölskyldunni. Spider veit ekki hvar hann stendur innan fjölskyldunnar, hinn uppreisnargjarni Lo'ak (Dalton) kennir sjálfum sér um bróðurmissinn og Kiri (Weaver) er enn að átta sig á kröftum sínum. Á sama tíma heldur leit ofurstans Quaritch að svikaranum Sully áfram.

Hvar endar Jake Sully?

Framvindan er ekki sérlega flókin en það er samt nokkuð snúið að sinna svona mörgum persónum sem mér finnst takast nokkuð vel. Myndin er löng, 197 mínútur eða rúmir þrír tímar, og notar Cameron tímann vel í að þróa sambönd milli karaktera og sýna meira frá Pandóru, þar á meðal kynna áhorfendur fyrir kaupmönnum sem fljúga um á risavöxnum loftbelgjum og ræningjaættbálki sem kennir sig við ösku. 

Eitt verður þó að segjast, þó náttúra Pandóru sé enn mjög tilkomumikil nær hún ekki að heilla mann jafnmikið upp úr skónum og í fyrri myndum. Skiljanlega minnkar undrið samhliða frekari kynnum.

Ein besta viðbót myndarinnar er nornin Varang sem er leiðtogi Makwang-ættbálksins, beitir hala sínum til að dáleiða fólk og vill dreifa eldi sínum um plánetuna. Oona Chaplin leikur seiðandi hexið einkar vel og myndar hún skemmtilegt dúó með illmenninu Quaritch sem er alltaf jafn sjarmerandi í höndum Stephen Lang.

Seiðnornin Varang er skemmtileg viðbót í karakteraflóru Avatar-seríunnar.

Hvað aðra leikara varðar finnst mér Saldaña eiginlega alltaf góð sem herskáa og tilfinningaríka móðirin Neytiri, Worthington er ekkert sjarmatröll en stendur sig fínt og Weaver er geggjuð sem hin óvenjulega Kiri. Krakkaleikararnir eru sæmilegir en verða stundum ósannfærandi og dálítið ankannalegir.

Líkt og í fyrri myndunum byggir Cameron söguna hægt og rólega upp með stöku skærum og eltingaleikjum inn á milli rólegri sena. Fyrir síðasta þriðjunginn er síðan allt lagt að veði í lokabardaga. Formúlan er ekki ýkja frumleg og í raun er síðasti klukkutíminn hér keimlíkur lokahluta myndar tvö. Á einhvern ótrúlegan hátt nær Cameron samt að gíra mann upp með því að stækka skalann, byggja upp spennu með bíótöfrum og lauma nokkrum óvæntum gestum á gestalistann.

Niðurstaða

Avatar: Fire and Ash er geðveik bíóupplifun með fallegum náttúrusenum, ótrúlegri eyðileggingu og gamla góða Cameron-hasarnum. Sömu vandamál og plöguðu fyrri myndirnar eru enn til staðar þó vissulega sé kafað dýpra ofan í ákveðnar persónur. Heittrúaðir aðdáendur James Cameron og Avatar-myndanna verða ekki sviknir. Þeir sem elska sjónarspil og góðan hasar verða það sennilega ekki heldur. En hinir vantrúuðu, þeir sem þoldu ekki síðustu tvær myndir eða fannst þær leiðinlegar, verða sennilega ekki sannfærðir úr þessu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.