Innlent

Töpuðu 133 milljónum króna á kosningaári

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins á landsþinginu í október.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins á landsþinginu í október. Vísir/Lýður

Tap af rekstri Miðflokksins á árinu 2024 nam 133 milljónum króna samanborið við 24 milljóna króna rekstrarafgang árið á undan. Flokkurinn setti 141 milljón króna í kosningabaráttuna á Alþingi í fyrra.

Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi flokksins. Næststærsti útgjaldaliður flokksins í fyrra var rekstur skrifstofu flokksins sem kostaði rúmlega 57 milljónir króna. Laun- og launatengd gjöld hjá flokknum í fyrra námu tæpum 18 milljónum króna.

Flokkurinn fékk tæplega 45 milljónir frá ríkissjóði í fyrra, sex milljónir frá Alþingi og tæpa milljón frá sveitarfélögum. Þá styrktu fyrirtæki flokkinn um 12,4 milljónir króna í fyrra og einstaklingar um 890 þúsund krónur.

Átta fyrirtæki styrktu flokkinn um 650 þúsund krónur sem er hámarksupphæð. Þar eru áberandi fyrirtæki í sjávarútvegi á borð við Hval, Síldarvinnsluna, Einhamar Seafood, Skinney-Þinganes og Samherja. Meðal styrktaraðila sem gáfu lægri upphæð má nefna stórfyrirtæki á borð við Kaupfélag Skagfirðinga, Útgerðarfélag Reykjavíkur, Kaldvík, Stoðir, HS Orku, Góu Lindu, Skel, KFC og Kviku banka.

Stærsta framlag einstaklings til flokksins var 550 þúsund krónur úr hendi Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur, eiginkonu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns flokksins.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og eiginkona hans Anna Sigurlaug Pálsdóttir þegar Sigmundur var í Framsóknarflokknum.vísir/anton brink

Eigið fé flokksins í árslok 2024 var neikvætt um sem nemur 26 milljónum króna. Eignir flokksins námu 89 milljónum í lok árs en þar munar mestu um fasteign að verðmæti 74 milljónir króna. Skuldir flokksins voru 116 milljónir króna í lok árs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×