Sport

Bardagakappi drukknaði á Amazon-svæðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gerónimo dos Santos fannst ekki fyrr en tveimur dögum eftir að hans var saknað.
Gerónimo dos Santos fannst ekki fyrr en tveimur dögum eftir að hans var saknað. @combatbuzz

Bardagakappinn Geronimo dos Santos, sem keppti lengi í blönduðum bardagalistum (MMA) og Bare Knuckle Fighting Championship (BKFC), er látinn 45 ára að aldri eftir að hafa drukknað heima í Brasilíu.

Brasilíski miðillinn Globo segir frá því að dos Santos hafi farið í sund á laugardagsmorgun í Negro-ánni nálægt Sao Gabriel da Cachoeira á Amazonas-svæðinu þar sem hann var í heimsókn með kærustu sinni. 

Hans var saknað skömmu síðar. Björgunarsveitir fundu lík hans á mánudag, en hann fannst fastur undir steinum á botni árinnar.

„Mondragon“ eins og hann var kallaður átti langan og víðförulan feril í bardagaíþróttum, háði yfir sjötíu atvinnubardaga í MMA og vann 45 sigra hjá ýmsum bardagasamtökum. 

Hann var þungavigtarkappi, þekktur fyrir árásargirni og höggskraft og keppti mikið á svæðisbundnum mótum. Í gegnum árin deildi hann búrinu með nokkrum þekktum nöfnum eins og Junior dos Santos, Josh Barnett og Aleksander Emelianenko.

Árið 2012 samdi Dos Santos við Ultimate Fighting Championship (UFC) eftir að hafa unnið ellefu bardaga í röð og átti að keppa sinn fyrsta bardaga fyrir samtökin gegn Gabriel Gonzaga á UFC 153 í Rio de Janeiro. Hins vegar var bardaginn sleginn af eftir að Dos Santos neyddist til að draga sig úr keppni og var hann að lokum leystur undan samningi án þess að hafa keppt í UFC-búrinu.

Eftir að MMA-ferlinum lauk sneri dos Santos sér að hnefaleikum án hanska og samdi við BKFC fyrr á þessu ári. Hann hafði strax mikil áhrif í fyrsta bardaga sínum og náði hrottalegu rothöggi í fyrstu lotu á fyrrverandi UFC-þungavigtarkappann Aleksei Oleinik. Annar bardagi gegn Andrei Arlovski var síðar á dagskrá í júní, en dos Santos dró sig úr keppni fyrir viðburðinn.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×