Sport

Pílukastarinn biðst af­sökunar á að hafa fallið á lyfjaprófinu og öllum lygunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dom Taylor kom sér aftur í klandur vegna neyslu ólöglegra efna.
Dom Taylor kom sér aftur í klandur vegna neyslu ólöglegra efna. getty/John Walton

Dom Taylor, sem var rekinn af HM í pílukasti eftir að hann féll á lyfjaprófi, hefur beðist afsökunar á að hafa logið að öllum.

Taylor vann Oskar Lukasiak, 3-0, í 1. umferð heimsmeistaramótsins og átti að mæta Jonny Clayton, sem er í 5. sæti heimslistans, í 2. umferð. Ekkert varð af þeirri viðureign því Taylor var kastað út af HM eftir að hafa fallið á lyfjaprófi.

Í færslu á samfélagsmiðlum baðst Taylor afsökunar á að hafa neytt ólöglegra lyfja. Hann segist hafa lifað í lygi.

„Ég verð líka að biðjast afsökunar á að hafa logið að öllum í viðtalinu mínu eftir sigurinn á Oskari í síðustu viku, eins og ég hef logið að sjálfum mér og öllum í kringum mig,“ skrifaði Taylor.

Hann var dæmdur í tveggja ára keppnisbann í janúar eftir að hann féll á lyfjaprófi. Bannið var stytt í þrjá mánuði og svo einn eftir að hann samþykkti að fara í meðferð.

Í viðtalinu eftir sigurinn á Lukasiak sagði Taylor að bannið sem hann var dæmdur í hafi verið stærstu vonbrigði ævinnar en hann væri kominn til baka.

Hinn 27 ára Taylor á yfir höfði sér annað og væntanlega lengra bann en ekki liggur fyrir hvenær ákvörðun um það verður tekin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×