Innlent

Sektaður um hundruð þúsunda fyrir að sparka í hund

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Hundinum var komið í umsjón annars.
Hundinum var komið í umsjón annars. Vísir/Getty

Einstaklingur var sektaður um 240 þúsund krónur fyrir að beita hund ofbeldi, þar á meðal að sparka ítrekað í hann. Mast sektaði fjölda dýraeigenda fyrir vanbúnað en vegna þess þurfti að aflífa fjölda dýra.

Viðkomandi hafði tímabundið umráð yfir hundatík. Hann gerðist sekur um að kippa í taum tíkarinnar, traðka með fæti á höfði og sparka að lokum ítrekað í vinstri síðu og búk hennar. Eigandi hundsins féllst á að hundinum væri komið í hendur annarra.

Þetta kemur fram í nýbirtum stjórnvaldsákvörðunum Mast í dýravelferðarmálum. Ákvarðanirnar voru teknar í ágúst, september og október.

Annar umráðamaður hunds var síðan sektaður um 270 þúsund krónur fyrir að draga fram úr hófi með að fara með hann til dýralæknis. Hundurinn var að lokum aflífaður. Einnig taldi Mast að brotið hefði verið á velferð kattar, til að mynda með vanfóðrun. Eigandanum var gert að greiða 195 þúsund króna sekt og var kettinum komið í hendur annarra.

Kalla þurfti til lögreglu til að fjarlægja snáka af heimili manns. Maðurinn var síðar kærður til lögreglu enda er ekki heimilt að flytja snáka inn til landsins.

Nautgripabóndi var einnig sektaður um 520 þúsund krónur fyrir að brjóta á velferð nautgripa með vanfóðrun þeirra og fyrir að fresta því of lengi að leita til dýralæknis vegna sjúkra eða slasaðra dýra. Þá var sauðfjárbóndi sviptur vörslum bústofns síns. Mast taldi að hann skorti bæði getu, hæfni og ábyrgð til að halda um féð en því var öllu slátrað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×