Körfubolti

Jóla­gjöf í Kefla­vík: Remy Martin snýr aftur

Valur Páll Eiríksson skrifar
Remy Martin var frábær hjá Keflavík á þarsíðustu leiktíð.
Remy Martin var frábær hjá Keflavík á þarsíðustu leiktíð. Vísir/Bára

Bandaríski leikstjórnandinn Remy Martin er snúinn aftur til liðs við Keflavík samkvæmt færslu liðsins á samfélagsmiðla. Hann var besti leikmaður liðsins á þarsíðustu leiktíð þar til hann meiddist í úrslitakeppninni.

Martin gekk í raðir Keflavíkur sumarið 2023 og var hreint stórkostlegur með liðinu leiktíðina 2023 til 2024. Liðið varð til að mynda bikarmeistari með hann að stýra spilinu þar sem hann var bæði stigahæsti og stoðsendingahæsti leikmaður liðsins þann veturinn.

Hann meiddist hins vegar illa það vorið í leik við Grindavík í úrslitakeppninni og var frá í marga mánuði.

Hann var orðaður við endurkomu til liðsins fyrir úrslitakeppnina í fyrra en það gekk ekki eftir. Nú virðist hins vegar sem svo að hann sé snúinn aftur.

Keflavík birti mynd af baksvip Martins á samfélagsmiðlum í dag. Skiptin hafa ekki verið staðfest með öðrum hætti en svo virðist sem að körfuboltaáhugamenn í Keflavík fái hina vænustu jólagjöf þetta árið.

Keflvíkingar hafa leikið vel það sem af er vetri og sitja í 3.-4. sæti deildarinnar ásamt Val með átta sigra í fyrstu ellefu umferðunum.

Martin ætti að geta leikið með liðinu í fyrsta leik á nýju ári, við ÍR í Breiðholti, þann 4. janúar næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×