Fótbolti

Svaka­legur derby-dagur fyrir Tómas Bent og fé­laga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tómas Bent Magnússon gefur ekkert eftir inni á vellinum og hér er hann í leik með Hearts og með bómull í nefinu.
Tómas Bent Magnússon gefur ekkert eftir inni á vellinum og hér er hann í leik með Hearts og með bómull í nefinu. Getty/ Malcolm Mackenzie

Þetta er stór dagur fyrir Tómas Bent Magnússon og félaga hans í Hearts. Ekki nóg með að þeir séu í harðri titilbaráttu þá eru þeir að fara að mæta grönnum sínum í Edinborg.

Grannaslagur í Edinborg er ávallt stór viðburður í skoskum fótbolta en leikurinn í dag milli Hibs og Hearts á Easter Road er þýðingarmeiri en flestir þar sem gestirnir í Hearts eru á flugi á toppi skosku úrvalsdeildarinnar.

Mættust fyrst árið 1875

Liðin mættust fyrst á jóladag árið 1875 þegar 1-0 sigur Hearts á The Meadows kveikti neista að ríg sem hefur staðist tímans tönn. Nú, 150 árum síðar, er Hearts sex stigum á undan Celtic í öðru sæti, eftir að hafa spilað einum leik meira en ríkjandi meistararnir, og lið Derek McInnes er með sextán stiga forskot á Hibs sem er í fimmta sæti.

Annar sigur í grannaslag á tímabilinu fyrir Tómas Bent og félaga myndi gefa þeim byr undir báða vængi inn í árið 2026, en þeir hafa þegar sigrað bæði Celtic og Rangers í þessum mánuði. Sigur á nágrönnunum myndi nánast gera þetta að fullkomnum mánuði.

Þegar liðin mættust á Tynecastle, heimavelli Hearts, í byrjun október tryggði mark Craig Halkett á síðustu stundu stigin fyrir Hearts og olli gríðarlegum fagnaðarlátum innan vallar sem utan.

Býst við spennuþrungnum leik

Derek McInnes, stjóri Hearts, býst við svipuðum spennuþrungnum leik og að hann muni ráðast á smáatriðum.

„Fyrir Hearts og Hibs er þetta alltaf aðalatriðið,“ sagði McInnes. „Þetta er alltaf stór viðburður.“

„Í samhengi við okkar tímabil viljum við bara vinna þrjú stig og halda öllu gangandi. Hibs er gott lið og það er alltaf erfiður leikur að fara á Easter Road. Ég býst við að hann verði svipaður og leikurinn á Tynecastle – það var í raun engu sem munaði og við skoruðum í blálokin á leiknum, sem olli gríðarlegri gleði,“ sagði McInnes.

Fastamaður í síðustu leikjum

Tómas Bent kom inn á sem varamaður undir lokin á fyrri leiknum en hefur síðan unnið sér sæti í byrjunarliðinu. Hann hefur byrjað alla þrjá síðustu leiki sem allir hafa unnist. Hann hefur einnig verið í byrjunarliðinu í sex af síðustu sjö leikjum og það er því afar líklegt að okkar maður fái að byrja sinn fyrsta Edinborgar-derbyslag í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×