Enski boltinn

Amorim endaði við­talið á gaman­sömum nótum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ruben Amorim fagnar sigri Manchester United á Old Trafford í kvöld.
Ruben Amorim fagnar sigri Manchester United á Old Trafford í kvöld. Getty/Carl Recine

Ruben Amorim, var kátur í sjónvarpsviðtali eftir sigurleikinn á Newcastle á Old Trafford enda var hann augljóslega mjög sáttur með þrjú dýrmæt stig.

Stjóri Manchester United sá sína menn landa mikilvægum þremur stigum í sigri á Newcastle í kvöld í leik þar sem liðið var án margra mikilvægra leikmanna og Portúgalinn var með akademíuleikmenn á bekknum.

Ofan á allt þurfti Mason Mount að fara meiddur af velli í hálfleik en liðið missti fyrirliðann Bruno Fernandes í leiknum á undan og var líka án sterkra varnarmanna og öflugra leikmanna sem eru uppteknir í Afríkukeppninni.

„Við þurfum öll að þjást saman á vellinum. Leikurinn var virkilega erfiður fyrir okkur. Mér fannst við spila góðan fyrri hálfleik en í seinni hálfleik vörðumst við bara og reyndum að gera eitthvað með Matheus] Cunha,“ sagði Amorim.

„Við fengum tækifæri í seinni hálfleik í skyndisóknum, en þetta var góður sigur. Ég hef spilað svo marga leiki hér þar sem ég hef sagt að við spiluðum mjög vel en fengum ekki þrjú stig, í dag var það öfugt. Við þurftum að þjást og náðum að vinna leikinn,“ sagði Amorim.

„Við höfum átt erfiða tíma og stundum getur það haft góð áhrif á hópinn, en það er gott að hafa þessa tilfinningu, að hafa reynslumikla leikmenn sem hjálpa ungu strákunum að hjálpa liðinu að skilja að við erum að þjást. Það skiptir ekki máli hvort þú ert fyrir utan völlinn, þú getur tekið þátt í leiknum, og mér fannst allir taka þátt í leiknum,“ sagði Amorim.

Amorim breytti um leikkerfi í kvöld og spilaði með fjögurra manna varnarlínu. Honum fannst það ganga upp.

„Í fyrri hálfleik fannst mér við sýna það. Mér fannst þetta eina leiðin til að skapa meiri hættu, að fá fleiri tækifæri, vera með fjögurra manna varnarlínu og marga leikmenn fyrir innan. Jafnvel til að halda boltanum, því ég man eftir leiknum í fyrra þar sem við töpuðum einn á einn úti á velli. Við reyndum bara að ímynda okkur leikinn og hjálpa leikmönnunum að líða vel,“ sagði Amorim.

Hann var með unga leikmenn úr akademíunni á bekknum vegna leikmannaskorts.

„Ég þekki sögu félagsins og ég vil vera hluti af því. Stundum þarftu bara að velja bestu leikmennina en í dag var það öfugt. Í mörgum leikjum höfum við sett leikmenn úr akademíunni inn á vegna þess að við urðum að gera það en þeir fá líka spilatíma vegna þess að þeir eiga það skilið,“ sagði Amorim.

Síðan kom hnyttin athugasemd frá Portúgalanum í lok viðtalsins: „Hreint mark, fjögurra manna vörn. Ég þarf ekki að halda blaðamannafund. Kobbie Mainoo er meiddur, þannig að öll umræðuefnin eru afgreidd og við getum farið heim að njóta annars dags jóla!“ sagði Amorim á gamansömum nótum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×