Innlent

„Fara þarf í raun­veru­legar að­gerðir“

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtaka Ísland í ræðustól á fundinum á Flúðum.
Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtaka Ísland í ræðustól á fundinum á Flúðum. Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Fara þarf í raunverulegar aðgerðir, sem skila raunverulegum árangri í loftlagsmálum”, segir formaður Bændasamtakanna og bætir við að það hafi verið jákvæð skref í vetur þegar veittur var fjárfestingastuðningur til ylræktarbænda til að draga úr orkukostnaði.

Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtakanna var nýlega með fundarherferð um landið þar sem hann og nokkrir starfsmenn samtakanna funduðu með bænum um málefni landbúnaðarins.

Loftlagsmálin voru ofarlega á baugi  hjá Trausta.

„Og breytingin, sem hefur orðið á allri umræðu við stjórnvöld, þá á ég sérstaklega við Jóhann Pál, umhverfis- og loftlagsráðherra að fyrir ekki mörgum árum snerist öll umræða um loftslagsmálin um skatta og landbúnað. Í dag erum við hins vegar í samtali við þennan ráðherra, ágæta ráðherra, sem er hinn uppáhalds ráðherrann okkar, að fá fjármagn, að það verði bara farið í eins og hann segir sjálfur, raunverulegar aðgerðir, sem skila raunverulegum árangri,” sagði Trausti á fundi á Flúðum en hér vísar hann í ylræktarbændur, sem rækta grænmeti í gróðurhúsum sínum.

Fundurinn var vel sóttur af bændum.Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Hann tók nú fyrsta skrefið í því í vetur þegar hann veitti fjárfestingastuðning í ylræktina til þess að draga úr orkukostnaði og þetta eru jákvæð skref. Þetta eru kannski ekkert endilega stærstu skrefin í upphafi en það skiptir máli að fá gott veður og halda áfram að vinna og stærsta atriðið í þessu er að geta verið á þeim stað að ráðuneyti, séu ekki að taka ákvörðun um starfsskilyrði landbúnaðarins án okkar aðkomu,” bætti Trausti við í ræðu sinni.

Hressir og kátir bændur úr uppsveitum Árnessýslu á fundinum.Magnús Hlynur Hreiðarsson
Ein af glærunum frá Traust á fundinum.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Forsvarsmenn Bændasamtakanna og Hrunamannahrepps á fundinum á Flúðum.Magnús Hlynur Hreiðarsson




Fleiri fréttir

Sjá meira


×