Fótbolti

Juventus stigi frá toppnum

Sindri Sverrisson skrifar
Pierre Kalulu fagnar fyrra marki Juventus í kvöld sem á endanum var skráð sem sjálfsmark.
Pierre Kalulu fagnar fyrra marki Juventus í kvöld sem á endanum var skráð sem sjálfsmark. Getty/Andrea Martini

Juventus þurfti að hafa mikið fyrir því að leggja Pisa að velli en vann að lokum 2-0 útisigur og er aðeins stigi frá toppnum í ítölsku A-deildinni í fótbolta.

Þetta var þriðji sigur Juventus í röð í deildinni og liðið lýkur árinu 2025 með 32 stig í 3. sæti, eftir sautján leiki. Mílanó-liðin Inter og AC Milan eru þó ofar, Inter með 33 stig og AC Milan 32 en betri markatölu en Juventus, og eiga tvo leiki til góða.

Pisa, sem aðeins hefur unnið einn leik á tímabilinu og er næstneðst, fyrir ofan Albert Guðmundsson og félaga í Fiorentina, átti tvö skot í tréverkið áður en Juventus tókst að komast yfir.

Pierre Kalulu fagnaði fyrra marki Juventus, á 73. mínútu, líkt og hann hefði skorað það en markið var svo skráð sem sjálfsmark Arturo Calabresi.

Í uppbótartíma bætti svo Tyrkinn tvítugi Kenan Yildiz við öðru marki.

Juventus tekur næst á móti Lecce, liði Þóris Jóhanns Helgasonar, þann 3. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×