Erlent

Ræðir upp­færða friðar­á­ætlun við Trump í dag

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Trump og Selenskí hittast í Mar-a-Lago setri Trumps í Flórída í dag.
Trump og Selenskí hittast í Mar-a-Lago setri Trumps í Flórída í dag. EPA

Volodýmýr Selenskí Úkraínuforseti hittir Donald Trump Bandaríkjaforseta í Flórída í dag þar sem til stendur að ræða uppfærða friðaráætlun í tuttugu liðum. Fundurinn er haldinn eftir umfangsmiklar loftárásir Rússa á Kænugarð um helgina.

Selenskí sagði í færslu á samfélagsmiðlum að árásir Rússa um helgina væru skýrt merki um að Rússar hefðu engan áhuga á friði.

Rússar gerðu umsvifamiklar loftárásir á Kænugarð í gær þar sem minnst tveir létust og 32 slösuðust, samkvæmt úkraínskum yfirvöldum. Þá séu um 40 prósent íbúa í Kænugarði og nágrenni án hita, eftir vel heppnaða árás á orkuinnviði.

Á fundinum, sem fer fram í Mar-a-Lago setri Trumps í Flórída, stendur til að ræða uppfærða friðaráætlun í tuttugu liðum sem fulltrúar Bandaríkjastjórnar og Úkraínu höfðu rætt á fundi í Flórída.

Samkvæmt frétt BBC er búist við að Selenskí vilji frekari öryggistryggingar frá Bandaríkjunum og öðrum Nato ríkjum, skyldi Rússland ráðast á Úkraínu á nýjan leik.

Þá er möguleg eftirgjöf Donbas-héraðs til Rússa einn helsti ásteytingarsteinninn í friðarviðræðunum. Upphafleg drög friðarsamkomulags Bandaríkjamanna sættu mikilli gagnrýni af hálfu Úkraínumanna og evrópskra bandamanna þeirra, þar sem í þeim var fallist á kröfur Rússa um yfirráð yfir héraðinu, þar á meðal svæðum sem þeir hafa ekki náð á sitt vald eftir fjögurra ára innrásarstríð.

Rússar hafa hernumið um 75 prósent af Donetsk héraði, og um 99 prósent af Luhansk héraði, en saman kallast þessi héruð Donbas.

Bandaríkjamenn hafa lagt til að sá hluti Donbas sem Rússar hafa ekki náð á sitt vald verði gerður að fríverslunarsvæði, og Selenskí segir þann möguleika koma til greina.

Selenskí er vongóður um að uppfærð friðaráætlun verði grunnurinn að samkomulagi um langvarandi frið í Úkraínu, samkvæmt frétt BBC.

„Þessi drög eru 90 prósent tilbúin. Okkar verkefni er bara að sjá til þess að þetta verði allt klárt,“ sagði hann.


Tengdar fréttir

Mun funda með Trump „í náinni framtíð“

Volodýmýr Selenskí Úkraínuforseti mun funda með Donald Trump Bandaríkjaforseta „í náinni framtíð“ og segir hann að margt geti ráðist fyrir árslok.

Kynnti drög að nýrri friðaráætlun

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti greindi frá helstu atriðum í tuttugu punkta drögum að friðarsamkomulagi sem Úkraína og Bandaríkin hafa til skoðunar. Forsetinn trúir því að drögin gætu orðið grunnurinn að friðarsamkomulagi þeirra við Rússa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×