Erlent

Sádar sprengja her­gögn frá fursta­dæmunum í Jemen og hóta frekari á­rásum

Samúel Karl Ólason skrifar
Skjáskot úr drónamyndbandi sem sýnir hergögn flutt úr skipi í Jemen.
Skjáskot úr drónamyndbandi sem sýnir hergögn flutt úr skipi í Jemen. AP/Ríkisútvarp Sádi-Arabíu

Her Sádi-Arabíu gerði í morgun loftárásir á höfnina í Mukalla í Jemen sem sagðar eru hafa beinst að vopnasendingum frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Ráðamenn í Sádi-Arabíu vöruðu í kjölfarið furstadæmin við því að aðgerðir þeirra og stuðningur við vopnaðan hóp sem kallast STC væri einkar hættulegur.

Í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneyti Sádi-Arabíu eru leiðtogar furstadæmanna hvattir til að flytja allar sínar sveitir frá Jemen innan sólarhrings og hætta stuðningi við STC. Þar segir að umsvif furstadæmanna í Jemen ógni fullveldi ríkisins og öryggi Sádi-Arabíu og brugðist verði við þeirri ógn, verði þörf þar á.

Ekki er vitað hvort mannfall hafi orðið en takmarkaðar upplýsingar um árásirnar sjálfar í morgun liggja fyrir en myndband sem hefur verið í dreifingu á netinu sýnir brynvörðum farartækjum sem talin eru koma frá Furstadæmunum á götum Mukalla.

Meðlimir STC hafa sótt fram gegn stjórnarher Jemen í suðurhluta landsins, með stuðningi frá Abu Dhabi. Leiðtogar STC vilja stofna eigið ríki í Aden-héraði í Jemen en Suður-Jemen var ríki frá 1967 til 1990.

Sádar hafa í meira en áratug stutt ríkisstjórn Jemen gegn uppreisnarmönnum Húta í vesturhluta landsins. Hútar hafa notið stuðnings frá Íran.

Þetta er í annað sinn á einni viku sem Sádar gera árásir gegn STC. Í frétt Wall Street Journal er haft eftir embættismönnum í Sádi-Arabíu að furstadæmin hafi sent hergögn um borð í tveimur skipum. Um hafi verið að ræða vopn og brynvarin farartæki.

Síðast gerðu Sádar árásir gegn STC á föstudaginn en það var í kjölfar þess að konungsríkið krafðist þess að leiðtogar STC flyttu sveitir sínar frá Hadramout-héraði í Jemen, sem liggur að landamærum Sádi-Arabíu.

Sádi-Arabía og furstadæmin hafa lengi verið bandamenn en ríkin hafa stutt andstæðar fylkingar í bæði Jemen og Súdan á undanförnum árum. Furstadæmin hafa um nokkurt skeið stutt vígamenn Rapid Support Forces í Súdan, sem hafa barist gegn stjórnarhernum þar í landi í blóðugri borgarastyrjöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×