Sport

Jafnaði sig af heilaskurðaðgerð og mætir Littler á af­mælis­daginn

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Krzysztof Ratajski á ótrúlega endurkomusögu.
Krzysztof Ratajski á ótrúlega endurkomusögu. Steven Paston/PA Images via Getty Images

Pílukastarinn Krzysztof Ratajski, einnig þekktur sem pólski örninn, er kominn aftur á kreik eftir heilaskurðaðgerð og er á leið í átta manna úrslit heimsmeistaramótsins, þar sem hann mun fagna afmæli og mæta ríkjandi heimsmeistaranum Luke Littler.

Hinn 48 ára gamli Ratajski hefur aldrei unnið stærstu mótin eða orðið heimsmeistari en öðlaðist frægð fyrir mikinn stöðugleika og hélt sér í fremstu röð pílukastara um árabil. Hann er líka brautryðjandi í heimalandinu og var fyrsti Pólverjinn til að keppa á HM í pílukasti.

Á síðasta ári féll hann út af heimslistanum í fyrsta sinn á ferlinum en hann greindi frá því eftir að hafa unnið Wesley Plaisier, með hádramatískum hætti í síðustu umferð, að hann hefði gengist undir tvær heilaskurðaðgerðir á síðasta ári.

„Ég fagna ekki oft, en þegar leikurinn er svona tæpur og maður nær að snúa við 3-1 stöðu þá leyfir maður sér að fagna… Ég hef verið að glíma við vandamál tengd heilsunni en það er allt í góðu lagi núna. Vonandi get ég farið að klifra aftur upp heimslistann“ sagði Ratajski.

Í dag sló hann svo rísandi stjörnuna Luke Woodhouse út í sextán manna úrslitum og komst áfram í átta manna úrslit. Spennan var áþreifanleg í viðureign þeirra tveggja en Ratajski vann síðustu tvö settin örugglega og leikinn að endingu 4-2.

Pólski örninn mun svo mæta efsta manni heimslistans og ríkjandi heimsmeistaranum, Luke Littler, í átta manna úrslitum á nýársdag.

Þar verður Ratajski væntanlega vel tekið af áhorfendum í salnum, enda fagnar hann 49 ára afmæli sama dag.

Á sama tíma má búast við því að áhorfendur í salnum láti Luke Littler heyra það, eftir ummælin sem kappinn lét falla í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×