Enski boltinn

Welbeck skoraði úr einu víti og brenndi af öðru

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Danny Welbeck skoraði úr einni vítaspyrnu gegn West Ham United en klúðraði annarri.
Danny Welbeck skoraði úr einni vítaspyrnu gegn West Ham United en klúðraði annarri. getty/Jordan Pettitt

Þrjár vítaspyrnur voru dæmdar í 2-2 jafntefli West Ham United og Brighton í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Newcastle United og Everton unnu sína leiki.

Jarrod Bowen, fyrirliði West Ham, kom sínum mönnum yfir á 10. mínútu eftir að hafa sloppið í gegnum vörn Brighton.

Danny Welbeck jafnaði úr víti á 32. mínútu og skömmu síðar fengu gestirnir annað víti. Welbeck fór aftur á punktinn en vippaði boltanum í slána.

Í uppbótartíma fyrri hálfleiks fékk West Ham víti eftir að Lewis Dunk handlék boltann innan teigs. Lucas Paquetá tók spyrnuna og skoraði af öryggi.

Markið dugði West Ham þó ekki til sigursins sem liðið þurfti svo mikið á að halda því Joël Veltman jafnaði á 61. mínútu. Lokatölur 2-2.

West Ham er í 18. sæti deildarinnar með fjórtán stig, fjórum stigum frá öruggu sæti. Brighton, sem hefur ekki unnið í fimm leikjum í röð, er í 14. sætinu með 25 stig.

Yoane Wissa virðist vera búinn að finna fjölina sína eftir langa fjarveru vegna meiðsla.getty/Lee Parker

Newcastle fékk sannkallaða draumabyrjun í 1-3 sigri á Burnley á Turf Moor. Joelinton kom gestunum yfir á 2. mínútu og fimm mínútum síðar jók Yoane Wissa muninn í 0-2.

Josh Laurent kom Burnley inn í leikinn með marki á 23. mínútu en nær komust heimamenn ekki. Í uppbótartíma skoraði Bruno Guimaraes svo þriðja mark Newcastle eftir slæm mistök Martin Dúbravka í marki Burnley sem er í nítjánda og næstneðsta sæti deildarinnar með tólf stig. Newcastle er í 10. sætinu með 26 stig.

Markaskorarar Everton Thierno Barry og James Garner fallast í faðma.getty/Shaun Botterill

Everton lyfti sér upp í 8. sæti deildarinnar með 0-2 sigri á Nottingham Forest á City Ground.

James Garner og Thierno Barry skoruðu mörk Everton sem var án margra lykilmanna í kvöld.

Þetta var þriðja tap Forest í röð en liðið er í 17. sæti deildarinnar með átján stig, fjórum stigum frá fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×