Enski boltinn

Losnar Sterling úr frysti­kistunni hjá Chelsea?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Raheem Sterling hefur ekki leikið fótbolta í Chelsea búning síðan snemma árs 2024.
Raheem Sterling hefur ekki leikið fótbolta í Chelsea búning síðan snemma árs 2024. Vísir/Getty

Enski knattspyrnumaðurinn Raheem Sterling er að vonast eftir varanlegum félagaskiptum frá Chelsea í þessum mánuði og það er vitað um áhuga frá bæði West Ham og Fulham.

Þessi 31 árs gamli leikmaður hefur verið frystur hjá Chelsea og er ekki endilega búist við að Sterling losni úr frystikistunni þrátt fyrir brotthvarf Enzo Maresca sem aðalþjálfara á fimmtudag.

Heimildir ESPN herma að West Ham hafi haft samband við Chelsea til að fá Sterling að láni en kantmaðurinn hafi hafnað þeim félagaskiptum á þeim forsendum einum að þau væru tímabundin.

Sterling vill helst vera áfram í London en væri opinn fyrir því að ganga til liðs við félag annars staðar ef rétt tilboð bærist. Fulham sýndi áhuga á að fá Sterling síðasta sumar og er talið að félagið sé tilbúið að kanna aftur samning í janúar.

Chelsea er áfram umhugsað að losna við 325.000 punda (55 milljónir króna) vikulaun Sterling af launaskrá sinni. Hann á enn átján mánuði eftir af samningnum sem hann gerði þegar hann kom frá Manchester City fyrir 47,5 milljónir punda árið 2022.

Sterling hefur æft fjarri aðalliðshópnum eftir að hafa verið gerður hluti af hinni alræmdu „sprengjusveit“ Maresca, hópi leikmanna sem stjórinn hafði enga þörf fyrir að nota.

Sterling var á láni hjá Arsenal seinni hluta síðasta tímabils og skoraði eitt mark í 28 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×