Innlent

Nýársbarnið á Suður­landi býr á Eyrar­bakka

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Nýársbarnið á Suðurlandi, sem kom í heiminn á fæðingadeildinni á Selfossi á nýársdag klukkan 17:06 en móðirin var sett 12. janúar. Móðir og barni heilsast vel.
Nýársbarnið á Suðurlandi, sem kom í heiminn á fæðingadeildinni á Selfossi á nýársdag klukkan 17:06 en móðirin var sett 12. janúar. Móðir og barni heilsast vel. Aðsend

Nýársbarnið á Suðurlandi fæddist á fæðingadeildinni á Selfossi í gær, 1. janúar, klukkan 17:06 en það var stúlka og fjölskyldan býr á Eyrarbakka. Foreldrar hennar eru þau Natalía Embla Þórarinsdóttir og Halldór Ingvar Bjarnason og stóri bróðir heitir Stormur Hrafn Halldórsson.

„Við erum rosalega ánægð með þjónustuna á fæðingadeildinni. Ljósmóðirin, sem tók á móti stelpunni heitir Hugrún Hilmarsdóttir. Það voru tvær ljósmæður viðstaddar, sem gerðu þessa upplifun algjörlega magnaða. Að eiga nýársbarnið á Suðurlandi 2026 er ótrúlega skemmtilegt. Stormur Hrafn á afmæli annan í jólum svo við erum nú þekkt fyrir að gefa börnunum okkar skemmtilega afmælisdaga,” segir Natalía Embla hlæjandi.

Fæðingadeildin á Selfossi er opin allan sólarhringinn.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Öflug starfsemi

„Það er öflug starfsemi á Ljósmæðravaktinni á Selfossi því þar er mikil starfsemi mæðraverndar og göngudeildarþjónustu í góðri samvinnu við áhættumæðravernd LSH. Fæðingardeild hjá okkur er opin allan sólarhringinn fyrir konur sem vilja fæða á Heilbrigðisstofnun Suðurlands og eru hraustar án undirliggjandi áhættuþátta og fara sjálfar af stað í fæðingu. Fæðingafjöldinn er mjög rokkandi milli ára eða milli 50-80 fæðingar á ári, sem klára fæðinguna hjá okkur. Árið 2025 voru það 48 fæðingar á Selfossi og þar af voru 23% vatnsfæðingar,” segir Björk Steindórsdóttir, yfirljósmóðir á Ljósmæðravaktinni.

Björk Steindórsdóttir, yfirljósmóðir á fæðingadeild Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Þá má geta þess að Elínborg Alda Baldvinsdóttir kom færandi hendi á dögunum með tvö heimferðasett og gaf deildinni. Nýársbarnið fékk annað settið með sér heim.

Elínborg Alda Baldvinsdóttir, sem gaf fæðingadeildinni á Selfossi tvö heimferðasett á dögunum.Aðsend



Fleiri fréttir

Sjá meira


×