Erlent

Rúm­lega þrjá­tíu Kúb­verjar sagðir hafa fallið í Venesúela

Kjartan Kjartansson skrifar
Samstöðufundur með Venesúela í Havana, höfuðborg Kúbu, eftir árás Bandaríkjanna á laugardag.
Samstöðufundur með Venesúela í Havana, höfuðborg Kúbu, eftir árás Bandaríkjanna á laugardag. AP/Ramón Espinosa

Stjórnvöld á Kúbu fullyrða að 32 kúbverskir liðsforingjar hafi fallið í hernaðaraðgerðum Bandaríkjanna í Venesúela um helgina. Þeir hafi unnið að aðgerðum í Venesúela að ósk þarlendra yfirvalda.

Um fjörutíu manns féllu þegar Bandaríkjaher gerði loftárásir á Caracas, höfuðborg Vensúela, og rændi Nicolás Maduro forseta og eiginkonu hans á laugardag. Stjórnvöld í Havana staðfestu í gær að 32 þeirra látnu væru kúbverskir her- og lögregluliðsforingjar, að sögn AP-fréttastofunnar.

Ekki liggur fyrir hvað kúbversku liðsforingjarnir höfðust við í Venesúela en kommúnistastjórn Kúbu er náinn bandamaður stjórnvalda í Suður-Ameríkulandinu og hefur ítrekað sent her- og lögreglulið til að aðstoða þau á undanförnum árum.

Venesúelsk stjórnvöld hafa ekki gefið upp hversu margir létust í árásum Bandaríkjanna. New York Times sagði frá því um helgina að talið væri að um fjörutíu hefðu fallið.

Bandaríkjastjórn hefur haft í hótunum við kúbversk stjórnvöld í kjölfar árásarinnar og ránsins á Maduro. Bæði Donald Trump forseti og Marco Rubio, utanríkisráðherra, hafa gefið til kynna að Bandaríkin gætu næst hlutast til á Kúbu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×