Sport

Víkingar fundu nýtt nafn á í­þrótta­svæði sitt í Safa­mýri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Víkingar eiga nú heimili í Víkinni í Fossvoginum og í Virkinu í Safamýri.
Víkingar eiga nú heimili í Víkinni í Fossvoginum og í Virkinu í Safamýri. Knattspyrnufélagið Víkingur

Víkingar tóku við íþróttamannvirkjunum í Safamýri þegar Framarar fluttu upp í Úlfarsárdal. Nú hafa Víkingar fundið nýtt nafn á íþróttasvæðið.

Í árlegu áramótakaffi Víkings þann 29. desember fór fram nafngift á svæði Víkings í Safamýri og þeir hafa nú opinberað nýja nafnið á miðlum félagsins.

Víkingar hafa verið með aðstöðu í Fossvoginum síðan 1991 og fékk sá staður nafnið Víkin.

Aðalstjórn Víkings samþykkti í nóvember 2025 að skipa sérstaka nafnanefnd sem myndi kalla eftir og fara yfir tillögur um nýtt nafn á íþróttasvæði Víkings við Safamýri.

Nafnanefndin fór ítarlega yfir allar tillögur sem bárust, fór yfir kosti og galla hverrar tillögu. Nefndinni var falið að skila tillögum til aðalstjórnar fyrir jól.

Á miðlum Víkings kemur fram að aðeins eitt nafn úr tillögunum hafi fengið grænt ljós. Íþróttasvæði Víkings í Safamýri heitir því hér eftir Virkið.

„Nafnið Virkið vísar á táknrænan og sterkan hátt í sjálfsmynd Víkinga. Það kallast á við Víkingahefðina, þar sem vikið var staður stuðnings, verndar og samheldni. Félagsheimilið gegnir einmitt slíkum hlutverkum fyrir félagið. Það er samkomustaður þar sem leikmenn, foreldrar, stuðningsfólk og samfélagið allt byggja upp liðsheild, rækta tengsl og styrkja innviði félagsins,“ sagði í rökstuðningi á miðlum Víkings.

„Virkið er einfalt, auðheyrt og minnisstætt nafn sem fellur vel að vörumerki Víkinga.“

Nýja slagorðið er: „Virkið - náttúrulegt heimili Víkinga.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×