Sport

Rekinn eftir á­tján ára starf en sjö fé­lög hringdu í hann strax

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John Harbaugh hafði þjálfað Baltimore Ravens í átján tímabil en hann ætti að hafa úr nógu af störfum að velja haldi hann áfram í þjálfun.
John Harbaugh hafði þjálfað Baltimore Ravens í átján tímabil en hann ætti að hafa úr nógu af störfum að velja haldi hann áfram í þjálfun. Getty/Michael Owens

Baltimore Ravens í NFL-deildinni rak John Harbaugh í gær og batt þar með enda á feril sigursælasta þjálfara í sögu félagsins.

Brottreksturinn kom tveimur dögum eftir að Ravens tapaði fyrir erkifjendunum í Steelers í Pittsburgh, 26-24, eftir að hafa klúðrað vallarmarkstilraun á síðustu sekúndunni.

Það tap útilokaði Hrafnina frá úrslitakeppninni í fyrsta sinn síðan 2021.

Harbaugh hafði skrifað undir þriggja ára samning síðasta vor og var samningsbundinn til loka 2028 tímabilsins.

Gríðarlega erfið ákvörðun

Í yfirlýsingu kallaði Steve Bisciotti, eigandi Baltimore, ákvörðunina „gríðarlega erfiða“. ESPN fjallar um brottreksturinn.

„Á þjálfaraferli sem ég tel eindregið að sé verðugur fyrir frægðarhöllina hefur John skilað Super Bowl-titli til Baltimore og verið staðfastur máttarstólpi auðmýktar og forystu,“ sagði Bisciotti.

„Hann og fjölskylda hans hafa fest djúpar rætur í þessu samfélagi. Fyrir þetta mikilvæga framlag, bæði innan vallar sem utan, ættum við öll að vera ævinlega þakklát“ sagði Bisciotti.

Mun alltaf vera þakklátur

„Markmið okkar hefur alltaf verið og mun alltaf vera að vinna meistaratitla. Við kappkostum að ná stöðugt okkar besta fram á vellinum og vera lið og félag sem stuðningsmenn okkar eru stoltir af. Ég mun alltaf vera þakklátur fyrir þá ótrúlegu vinnu og hollustu sem John og starfslið hans hafa sýnt á mörgum farsælum árum,“ sagði Bisciotti.

Harbaugh verður nú heitasta nafnið á þjálfaramarkaðnum ef hann ákveður að snúa aftur á hliðarlínuna fyrir 2026 tímabilið.

Eitt félagið enn með þjálfara í starfi

Umboðsmaður hans, Bryan Harlan, sagði Adam Schefter hjá ESPN það að á fyrstu 45 mínútunum eftir að Harbaugh var rekinn á þriðjudag hafi Harlan fengið símtöl frá sjö NFL-liðum sem lýstu yfir áhuga á skjólstæðingi sínum.

Eins og staðan er núna eru sjö lausar stöður aðalþjálfara í NFL, þar á meðal hjá Baltimore, sem þýðir að að minnsta kosti eitt þessara liða er enn með þjálfara í starfi.

Hinn 64 ára gamli Harbaugh er í tólfta sæti yfir flesta sigurleiki þjálfara í sögu NFL með 193 sigra og hann leiddi Ravens til sigurs í Super Bowl árið 2012.

Harbaugh stýrði Ravens í átján tímabil og var þjálfarinn með næstlengsta starfsaldurinn í deildinni á eftir Mike Tomlin, sem er á sínu nítjánda tímabili með Steelers.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×