Enski boltinn

„Gabi vildi ekki gera honum neitt slæmt“

Sindri Sverrisson skrifar
Conor Bradley og Gabriel Martinelli í baráttunni í London í kvöld.
Conor Bradley og Gabriel Martinelli í baráttunni í London í kvöld. Getty/John Walton

Mikel Arteta, stjóri Arsenal, segir að töfraaugnablik hefði þurft til að brjóta ísinn í stórleiknum við Liverpool í kvöld. Hann varði Gabriel Martinelli sem sakaður var um slæma framkomu í lok leiks.

Ekkert mark var skorað í leiknum og er Arsenal því nú með sex stiga forskot á toppi úrvalsdeildarinnar, á Manchester City og Aston Villa. Arsenal var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik í kvöld en átti svo ekki skot á mark í seinni hálfleik fyrr en í uppbótartímanum.

„Við vitum að þetta snýst um smáatriði. Þetta voru mjög ólíkir hálfleikir. Í þeim fyrri höfðum við mikla stjórn, sköpuðum stór tækifæri en náðum ekki að finna réttu sendinguna til að skora. Þetta var meira basl í seinni hálfleik.

Svona leikur hefði þurft töfraaugnablik eins og á Anfield þegar Szoboszlai skoraði, og þeir unnu, en í dag gerðist það ekki,“ sagði Arteta sem virtist þó ekki svo ósáttur.

„Við vorum að koma úr mjög krefjandi leikjadagskrá eftir þessa síðustu sex leiki yfir jólin og við höfum komið út úr þeim í mjög sterkri stöðu,“ sagði Arteta.

Hann var svo spurður út í lætin undir lok leiks, þegar Gabriel Martinelli lét boltann falla á meiddan Conor Bradley og reyndi svo að ýta honum út fyrir hliðarlínu, áður en Bradley var borinn á börum af velli.

„Líklega vissi hann ekki [um meiðsli Bradley] því þekkjandi Gabi þá var enginn vilji þarna. Ég veit ekki hvað kom fyrir Conor en vonandi var það ekkert slæmt, en það er augljóst að Gabi vildi ekki gera honum neitt slæmt,“ sagði Arteta.

Dominik Szoboszlai, miðjumaður Liverpool, sagði um sama atvik: „Ég sá að Conor sneri upp á hnéð. Ég veit ekki hvað kom fyrir hann, auðvitað var hann ekki að hugas um að tefja heldur var hann bara svo þjáður að hann gat ekki hugsað um hvar hann rúllaði og Gabriel kom þarna til að ýta honum af velli. Ég skil að menn vilji vinna, við vildum líka vinna, en ég held að heilsa leikmanna sé mikið mikilvægari en nokkuð annað,“ sagði Szoboszlai.


Tengdar fréttir

Arsenal með sex stiga forskot eftir blautan slag

Þrátt fyrir að sigurgöngu Arsenal hafi lokið í kvöld er liðið komið með sex stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta, eftir markalaust jafntefli í stórleiknum gegn Liverpool í Lundúnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×