Enski boltinn

Saka skrifar undir nýjan langtíma­samning við Arsenal

Aron Guðmundsson skrifar
Bukayo Saka er ekki á förum frá Arsenal á næstunni.
Bukayo Saka er ekki á förum frá Arsenal á næstunni. Vísir/Getty

Bukayo Saka, stjörnuleikmaður enska úrvalsdeildarfélagsins Arsenal, hefur skrifað undir nýjan langtímasamning við félagið til ársins 2031. 

Það er Sky Sports sem greinir frá þessu núna síðdegis en gamli samningur Saka við Arsenal átti að renna sitt skeið í júní á næsta ári og voru félög á Englandi sem og víðar í Evrópu að fylgjast grannt með stöðu mála hjá enska landsliðsmanninum. 

Hann hefur ný krotað undir nýjan samning við Arsenal og hefur Sky Sports eftir heimildarmönnum sínum að það hafi alltaf verið forgangsatriði hjá Saka. 

Leikmaðurinn leikur algjört lykilhlutverk í liði Arsenal undir stjórn Mikel Arteta. Skytturnar eru sem stendur inni í öllum keppnum, á toppnum í ensku úrvalsdeildinni sem og í Meistaradeild Evrópu. 

Allt í allt hefur hinn 24 ára gamli Saka, sem gekk til liðs við félagið sjö ára gamall og er uppalinn í akademíu þess, spilað 290 leiki fyrir aðallið Arsenal, skorað 77 mörk og lagt upp sama fjölda marka til viðbótar. Hann er sá leikmaður sem hefur spilað flestar mínútur undir stjórn Arteta síðan að Spánverjinn tók við stjórnartaumunum hjá liðinu árið 2020.

Saka er einn fjölmargra leikmanna sem hafa skrifað undir nýjan samning við Arsenal undanfarna mánuði. William Saliba og Gabriel, lykilmenn í hjarta varnarinnar hjá Arsenal, skrifuðu báðir á dögunum undir nýjan samning. 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×