Íslenski boltinn

Þrótti berst mikill liðs­styrkur úr Kefla­vík

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Kristrún Ýr er leikjahæsti leikmaður í sögu Keflavíkur og hefur spilað allan sinn feril hingað til með uppeldisfélaginu.
Kristrún Ýr er leikjahæsti leikmaður í sögu Keflavíkur og hefur spilað allan sinn feril hingað til með uppeldisfélaginu.

Kristrún Ýr Hólm er genginn til liðs við Þrótt og mun spila með liðinu á komandi tímabili í Bestu deild kvenna í fótbolta.

„Kristrún Ýr er einn reyndasti leikmaður íslenskrar kvennaknattspyrnu og kemur til Þróttar eftir langan og farsælan feril með Keflavík, þar sem hún var um árabil lykilleikmaður og fyrirliði liðsins. Hún hefur leikið í efstu deild um áraraðir og vakið atygli fyrir leiðtogahæfileika, mikla vinnusemi og fagmennsku – jafnt innan sem utan vallar. Alls á hún að baki um 270 leiki í meistaraflokki, þar af 91 í efstu deild” segir í tilkynningu Þróttar.

Kristrún er leikjahæsti leikmaður í sögu Keflavíkur en tilkynnti eftir síðasta tímabil að hún myndi leita á önnur mið á ænsta tímabili. 

„Samhliða knattspyrnuferlinum hefur Kristrún Ýr lagt stund á doktorsnám sem miðar að því að bæta snemmsgreiningu brjóstakrabbameins, verkefni sem undirstrikar metnað hennar og áherslu á samfélagslega ábyrgð utan íþróttanna“ segir einnig um Kristrúnu í tilkynningunni.

Kristrún er annar leikmaðurinn sem Þróttur fær til félagsins síðan síðasta tímabili lauk en áður hafði Björg Gunnlaugsdóttir komið frá FHL.

Þróttur endaði í þriðja sæti Bestu deildarinnar á síðasta tímabili undir stjórn Ólafs Kristjánssonar en Jóhann Kristinn Gunnarsson tók við þjálfarastarfinu eftir að tímabilinu lauk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×